Pólitísk hreiðurgerð á upphafsárum bankakerfisins

Guðmundur Hörður
21 min readJan 20, 2022

--

Þegar íslenska bankakerfið hrundi árið 2008 voru liðin 122 ár frá því að fyrsti bankinn hóf rekstur hér á landi. Í Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna er m.a. fjallað um smæð samfélagsins og ókosti þess fyrir bankarekstur:

Smæð íslensks samfélags skapar miklu fremur forsendur fyrir fyrirgreiðslupólitík sem byggist á kunningsskap og ættartengslum milli manna og elur á mismunun … . Bent hefur verið á að slæleg vinnubrögð í íslenskri stjórnsýslu sé nærtækast að skýra „með almennu agaleysi, eða skorti á grundvallarreglum sem þrífst vel við skilyrði smæðarinnar. “[1]

Rannsóknarskýrsla Alþingis er skrifuð þegar Íslendingar voru um 315.000 manna samfélag með mikilli og virkri lýðræðislegri þátttöku almennings, en íslenska bankakerfið tók sín fyrstu skref í 72.000 manna samfélagi þar sem mjög fámennur hópur karla fór með völdin og einungis um 3% þjóðarinnar kaus til Alþingis. Það var með þessum upphafsskrefum sem stjórnmálin og bankakerfið runnu nánast saman í eina heild og sköpuðu grundvöll að meira en aldar langri óstjórn og aðhaldsleysi í efnahagsmálum hér á landi með tilheyrandi verðfalli krónunnar, verðbólgu og efnahagsáföllum. Í þessum pistli rek ég þessa sögu frá aðdraganda stofnunar Landsbankans og þar til að bankinn var kominn að fullu undir pólitíska stjórn Heimastjórnarmanna.

Rík þörf fyrir innlenda bankastofnun

Á 19. öld var Ísland eitt fátækasta og vanþróaðasta land Evrópu, með landsframleiðslu sem var sú lægsta í allri Vestur-Evrópu undir lok aldarinnar.[2] Peningar í umferð og sparifé í bönkum sem hlutfall af landsframleiðslu, sem er mælikvarði á þróunarstig fjármálakerfa, var um 5% á níunda áratug aldarinnar, en hlutfallið er að meðaltali um 27% hjá þeim ríkjum sem eru vanþróuðust.[3] Viðskipti fóru að lang mestu leyti fram með vöruskiptum og reiðufé var sjaldséð en bændur gátu sótt takmarkað lánsfé í landssjóð og kaupmenn, sem flestir voru danskir, sóttu slíkt til Danmerkur. Óhagræðið sem fylgdi því að hér var engin fjármálastofnun starfandi kom berlega í ljós þegar Íslendingar hófu tilraunir með útflutning á sauðfé árið 1866. Eiríkur Magnússon, bókavörður í Cambridge, var einn þeirra sem reyndi fyrir sér á þessu sviði og að Íslandsför lokinni skrifaði hann bréf til Jóns Sigurðssonar þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að ekki verði hægt að vinna að endurreisn Íslands án banka:

Nú sem stendur vita menn ógjörla, hvað mikið fé er á lausum kili í landinu. Bændur hafa ekki freistni til neins nema að dylja fé sitt og láta það liggja fyrir aðgjörðarlaust, þangað til svo mikið hefir safnast, að þeir geta keypt fyrir það jörð, eða þjófum þykir hafandi fyrir að hnupla því. Engum ábyrgðarfélögum verður á komið, því þau geta engan veginn komið fé sínu í vöxtu. … Árlega glötum við mörgum hundruðum þúsunda í dauðum vöxtum þess fjár, er liggur á kistubotnum vorum, sökum þeirra, og alt liggur í dauðans hvofti, vegir, samgöngur og hvað sem heiti hefir. … Við ættum nú að … heimta fjárskilnað með afli og kergju.[4]

Eiríki varð að ósk sinni nokkrum árum síðar, en fjárhagur Íslands og Danmerkur var aðskilinn árið 1871 og fjárforræði fengu Íslendingar með stjórnarskránni 1874. Þorlákur Ó. Johnson kaupmaður tók að sér ritstjórn Þjóðólfs árið 1876 og hvatti þá til stofnunar þjóðbanka, en hann taldi að það sem stæði helst í vegi fyrir framförum þjóðarinnar væri peningaskortur. Hann varaði við því að vesturferðum ætti eftir að fjölga ef samfélagið þróaðist ekki til nútímans:

Svo mikið er víst, að ef vjer ekki gjörum betri skil með að koma bæði upp Banka, leggja vegi um landið, bæta fjárræktina og sjóarútveginn, þá er ekki annað fyrir að sjá en sú unga og komandi kynslóð flytji hjeðan … Það er ekki allt landinu okkar að kenna hversu vjer erum orðnir á eptir öðrum þjóðum í flestu. Það er mikið sjálfum okkur að kenna; enn þá er samt tíð að byrja nýtt líf og einmitt það sem oss mest ríður á, er að útvega oss peningana til þess að geta starfað með.[5]

Umræða á Alþingi um stofnun banka

Umræðan þokaði málinu áleiðis og tillaga um stofnun fjármálastofnunar kom fyrst af fullri alvöru til kasta Alþingis árið 1881, en eftir sem áður þurfti enn að bíða í nokkur ár þar til að þingmenn kæmu sér saman um útfærslu hennar. Meðal þess sem þingmenn greindi á um var hvort stofna ætti lítið fasteignalánafélag eða alvöru banka, hvort gjaldmiðillinn þyrfti að vera málmtryggður, hvort bankinn ætti að vera í einka- eða opinberri eigu og síðan það sem skiptir mestu fyrir þessa umfjöllun hér — hvort stjórnandi bankans þyrfti að vera sérfræðingur á sviði bankamála. Til verulegra tíðindi dró á þingi 1885 þegar stjórnin lagði fram frumvarp um stofnun banka eftir leiðsögn danskra sérfræðinga sem Alþingi féllst á. Í umræðu um málið var m.a. fjallað um stöðu bankastjóra væntanlegs banka og lögðu sumir þingmenn ríka áherslu á að hann yrði að vera fagmaður á sínu sviði. Þannig taldi Halldór Kr. Friðriksson t.d. að ætluð árslaun upp á 2.000 kr. dygðu ekki til að fá „mann sem sje alþekktur að dánumennsku“ til að sækjast eftir slíku starfi:

Það er mjög áríðandi að fá einhvern í fyrstunni fyrir framkvæmdastjóra, sem er fullkunnugur öllum bankastörfum, því ef hann er ekki kunnugur þeim, getur það eitt orðið til þess að bankinn fari á höfuðið. Það er því varhugavert að einskorða þessi laun við 2000 kr. Fyrst þingið er búið að gera sjer svo góðar vonir um þennan banka, þá væri nauðsynlegt að fá í fyrstunni einhvern útlendan mann, sem væri gagnkunnugur þessum störfum.[6]

Í efri deild tók Benedikt Kristjánsson undir þetta og sagði launin vera lægri en allra annarra veraldlegra embættismanna. Launin þyrftu að vera 3.000 kr. ef þau ættu að teljast viðunandi. Bergur Thorberg landshöfðingi sagði að launin væru ætluð lág en á móti kæmi að bankastjórinn gæti haft önnur störf á hendi. Þingmönnum neðri deildar var aftur á móti svo umhugað um að fá erlendan sérfræðing til starfans að þeir samþykkti að veita 3.000 kr. launaviðbót handa útlendum framkvæmdastjóra. Þingmenn efri deildar höfðu aðra afstöðu í málinu og sagði Magnús Stephensen að orðið „útlendur“ hafi hneykslað þá. Það gæti vel hugsast að til væri innlendur maður sem væri nægilega bankafróður til að taka að sér stöðu bankastjóra, eða þá að minnsta kosti nýtt sér tímann fram að stofnun bankans til að kynna sér bankastörf svo nægjanlegt teldist. Magnús taldi þvert á móti hættu á að útlendur maður væri síðri kostur til starfans þar sem hann væri ókunnugur mönnum og landsháttum. Fór svo að tillaga neðri deildar um launaviðbót fyrir erlendan framkvæmdastjóra var felld í efri deild með átján atkvæðum gegn fimmtán, en samþykkt var að veita sérstakan þúsund króna styrk handa framkvæmdastjóra Landsbankans til að kynna sér bankastörf erlendis. Þannig náði fámennur en valdamikill hópur innlendra embættismanna að tryggja sér aðgang að bankastjórastöðunni og kom í veg fyrir að erlendur sérfræðingur yrði ráðinn í starfið. Þar með var tónninn gefinn fyrir pólitískar ráðningar í bankakerfinu.

Samfélagið við stofnun Landsbankans

Seinni hluti nítjándu aldar reyndist íslensku smáþjóðinni erfiður með fjárkláða, kulda og uppskerubresti í samfélagi þar sem um 80% landsmanna bjuggu til sveita og þurftu að fóðra húsdýr til að hafa í sig og á. Tíðin var svo slæm að landsflótti hófst til Bandaríkjanna og Kanada. Árið sem Landsbankinn hóf rekstur fluttu 504 Íslendingar vestur um haf en árið eftir náði tala íslenskra efnahagsflóttamanna hámarki, 1.947, samanlagt um 2,5% þjóðarinnar. En þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika þá var eftir sem áður til staðar stöndug yfirstétt á Íslandi, en hún var fámenn í réttu hlutfalli við fámenni þjóðarinnar. Í Sögu Reykjavíkur segir Guðjón Friðriksson að um þrjátíu fjölskyldur embættismanna og kaupmanna hafi tilheyrt yfirstéttinni í þorpinu á áttunda áratug nítjándu aldar sem hafi verið bundin saman af sterkum ættarböndum. Vitnar Guðjón til Steingríms Thorsteinsonar sem kom heim eftir langa dvöl erlendis og sagði þessa ,,klíku“ vera bæði snobbaða og þröngsýna og svo flækta í ættar- og kunnugleikasambönd að til mesta ófagnaðar heyrði.[8] Um stéttaskiptinguna í Reykjavík á þessum tíma er fjallað ágætlega í sögunni um Þóru Pétursdóttur, dóttur Péturs Péturssonar biskups og eins auðugasta manns landsins. Þar er lýst brúðkaupsveislu hennar sem haldin var á Hótel Alexandríu í Hafnarstræti árið 1887. Brúðurin var klædd í sérsaumaðan brúðarkjól frá Kaupmannahöfn og í skóm frá París, skálað var í ellefu tegundum af dýrum vínum og matseðillinn var sex rétta með lambalæri, humri, ostrum og truflum. Veislan hafi verið haldin í lok eins mesta samdráttarskeiðs í sögu Íslands ,,sem einkenndist af farsóttum, illviðrum kulda, grasbresti, skepnufelli og slæmum viðskiptakjörum. … Erlendar þjóðir höfðu komið Íslendingum til hjálpar með matargjöfum … en landstjórnin veitti hins vegar enga fjárhagsaðstoð vegna harðindanna. Afleiðingin varð sú að fólk svalt og þúsundir flúðu til Ameríku.“[9]

Þorsteinn Thorarensen heldur því fram í Mórölskum meisturum að „klíkusamfélagið“ í Reykjavík hafi eflst á síðari hluta 19. aldar, fyrst með stofnun landshöfðingjaembættisins þar sem skipunarvaldið hafi í raun verið flutt inn í landið og síðan með launalögunum 1875 sem hafi verulega aukið fjárhagslegt bolmagn embættismanna. Þannig hafi opinber störf fært einstaklingum bæði auð og völd.[10] Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á íslenska valdakerfinu á þessum tíma staðfesta að það byggðist á fámennum hópi sem bar öll einkenni elítu sem hélt um helstu valdaþræði í stjórnsýslunni, á Alþingi og fjölmiðlum. Hópurinn byggði m.a. sameiginlegum menntunargrunni, valdamiklum ættum og miklum venslum þeirra á milli. Ólafur Ragnar Grímsson bendir á að þessi valdahópur hafi ekki einvörðungu haft tök á helstu valdastofnunum, heldur hafi ítökin og samstaðan náð til fleiri sviða í samfélaginu, t.d. bókmenntafélaga, trúfélaga, bindindishreyfinga og fyrirtækja, eins og t.d. verslunarfélaga og banka.[11]

Stjórn Landsbankans 1886–1893

Lárus E. Sveinbjörnsson, fyrsti bankastjóri Landsbankans.
Lárus E. Sveinbjörnsson, fyrsti bankastjóri Landsbankans. Hann var bæði konungskjörinn þingmaður og yfirdómari í landsyfirrétti þegar hann var ráðinn bankastjóri. Hann var því í þeirri óvenjulegu stöðu að gegna hlutverki í öllum þremur greinum ríkisvaldsins; löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvaldi.

Samkvæmt Landsbankalögunum var stjórn bankans skipuð framkvæmdastjóra sem var skipaður af landshöfðingja og tveimur gæslustjórum sem kosnir voru á Alþingi. Bankinn var því opinber stofnun undir stjórn löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Landshöfðingi skipaði einnig bókara bankans og féhirði eftir tillögum bankastjórnarinnar. Þann 24. október 1885 réð Bergur Thorberg landshöfðingi Lárus E. Sveinbjörnsson framkvæmdastjóra Landsbankans, en áður hafði Alþingi skipað þá Jón Pétursson háyfirdómara og séra Eirík Briem gæslustjóra bankans. Lárus var á þessum tíma konungskjörinn þingmaður og yfirdómari í landsyfirrétti og var því í þeirri óvenjulegu stöðu að gegna hlutverki í öllum þremur greinum ríkisvaldsins; löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvaldi. Lárus var úr efri stétt, dóttursonur Lauritz Michael Knudsens, kaupmanns í Reykjavík, og kjörsonur Þórðar Sveinbjörnssonar, háyfirdómara í landsrétti og konungskjörins alþingismanns. Aðrir starfsmenn bankans voru tveir, Sighvatur Bjarnason bókari og Halldór Jónsson féhirðir. Sighvatur var af fátæku fólki kominn en réðst einungis fimmtán ára gamall til starfa hjá Jóni Jónssyni landshöfðingjaritara. Hann varð síðar mikill bandamaður Hannesar Hafstein og var ráðinn bankastjóri Íslandsbanka við stofnun hans. Hinn féhirðir Landsbankans við stofnun var, Halldór Jónsson, guðfræðimenntaður gjaldkeri Sparisjóðs Reykjavíkur og eiginmaður Kristjönu, dóttur Péturs Guðjohnsen þingmanns. Kristjana og Lárus bankastjóri voru systrabörn. Jón Pétursson gæslustjóri var háyfirdómari í landsyfirdómi og konungskjörinn alþingismaður. Hann var bróðir Péturs biskups og þingmanns sem var tengdafaðir Bergs Thorberg landshöfðingja. Þorsteinn Thorarensen segir í bók sinni, Móralskir meistarar, að Pétur hafi stundað svo víðtæka veðlánastarfsemi meðfram biskupsembættinu að segja mætti að hún hafi verið undanfari og upphaf að Landsbankanum.[12] Báðir bræðurnir, Jón og Pétur, voru kunnir fyrir lánastarfsemi, samkvæmt því sem Bergsteinn Jónsson ritar í grein sinni um aðdraganda bankastofnunar í Reykjavík, bæði úr sjóðum sem þeir réðu yfir embættis síns vegna, en einnig hafi þeir sjálfir átt talsverð og vaxandi efni.[13] Séra Eiríkur Briem, hinn gæslustjóri Landsbankans, var sonur Eggerts Briem sýslumanns. Hann var alþingismaður, kennari við Prestaskólann og stofnandi Söfnunarsjóðs Íslands og forstöðumaður hans frá stofnun 1883 til 1920. Það fer því ekki á milli mála að Landsbankanum var var strax frá stofnun stjórnað af valdaelítu þess tíma sem hélt öllum þráðum ríkisvaldsins í sínum höndum, auk þess sem hún hafði ráðandi áhrif í vanþróuðu en vaxandi fjármálakerfi.

Starfsmannamál Landsbankans vöktu strax gagnrýni og umtal og á Alþingi 1889 voru Landsbankalögin og starfsmannamálin til umræðu. Páll Briem gagnrýndi stjórn bankans fyrir að hafa ekki komið á viðskiptasambandi við erlenda banka og taldi hann ástæðu þess vera að bankastjórinn hefði bankastörfin í hjáverkum og hefði auk þess ,,búið sig undir allt aðra stöðu í lífinu en bankastjórn.“[14] Þorleifur Jónsson beindi gagnrýninni beint að bankastjórnendunum og sagði þá hafa mörg önnur áríðandi störf á hendi, auk þess sem þeir hefðu lært að gegna allt öðrum störfum en bankastörfum. Þá hefði embættið verið veitt í ,,kyrþey, og mönnum því eigi gefinn kostur á að sækja um það. Ef það væri auglýst, er jeg viss um að margir mundu gefa sig fram, sem eru vel færir um, að standa í þessari stöðu.“[15] Árið 1891 var ritað í Þjóðviljann unga að landshöfðingi hefði ráðið ,,kunningja“ sinn sem framkvæmdastjóra við bankann, m.a. til að skaffa honum aukatekjur svo laun hans jöfnuðust á við laun Magnúsar Stephensen sem hafði fengið amtmannsembætti úthlutað meðfram stöðu sinni sem yfirdómara. Síðan segir:

Sú víkverska kunningsskapar-,,pólitík“, sem svo glögglega þótti lýsa sér í þessari útnefningu, mæltist auðvitað illa fyrir um land allt; landsmenn höfðu byggt miklar og glæsilegar vonir á stofnun Landsbankans, og þeim sárnaði það því, þegar æðsta stjórn þessarar stofnunar var falin manni, sem vitanlega kunni ekki meira en hver annar til bankastarfa, og sem auk þess hafði vandasömu, ábyrgðarmiklu og hálaunuðu embætti að gegna. En hér á landi þykjast stjórnendurnir, sem kunnugt er, hafnir yfir að taka tillit til almenningsálitsins, og það þá ekki sízt, þegar það kemur í bága við persónulega hagsmuni ,,vinanna og kunningjanna“.[16]

Stjórn Landsbankans frá 1893

Tryggvi Gunnarsson, annar bankastjóri Landsbankans.
Tryggvi Gunnarsson var annar bankastjóri Landsbankans. Hann var ekki langskólagenginn, var forstjóri yfir fyrirtæki sem var komið í fjárhagskröggur og var auk þess sjálfur í skuld við bankann. En hann naut góðra tengsla við landshöfðingja.

Gagnrýnin hafði þau áhrif að Lárus, dómari og bankastjóri, ákvað að segja sig frá starfi bankastjóra vorið 1893. Tryggva Gunnarsson, þá forstjóra Gránufélagsins, hafði litið stöðuna hýru auga og kunningsskapur hans og Magnúsar Stephensen landshöfðingja var ,,gamall og gróinn.“[17] Fór svo að Magnús veitti Tryggva bankastjórastöðuna 5. september 1893 þrátt fyrir að hann hefði enga menntun til að bera, væri forstjóri yfir fyrirtæki sem var komið í fjárhagskröggur, auk þess sem hann var sjálfur í skuld við bankann. Þess vegna drógu sumir í efa að hann hefði til að bera þekkingu eða eiginleika sem helst þyrfti að prýða bankastjóra. Að minnsta kosti segir Bergsteinn Jónsson að sá kvilli hafi fylgt Tryggva allan hans feril hjá Gránufélaginu að eiga örðugt með að ganga frá reikningsyfirliti.[18]

Meðal umsækjenda um stöðu bankastjórans voru margir sem höfðu reynslu og menntun af bankastörfum, þ.á.m. bankastarfsmennirnir Halldór Jónsson og Sighvatur Bjarnason, hagfræðingarnir Indriði Einarsson og Sigurður Briem og hagspekingurinn Arnljótur Ólafsson. En auk vinskapar við landshöfðingja þá hefur Tryggvi vafalaust notið þess að áköfustu stuðningsmenn hans voru Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, og vinirnir Þórhallur Bjarnason, tengdasonur hans, og Hannes Hafstein, landshöfðingjaritari og systursonur Tryggva. Segir Bergsteinn Jónsson að þeir hafi náð eyrum þess sem stöðuna veitti, þ.e. Magnúsar landshöfðingja.[20] Í ævisögu Þórhalls segir að vinir Tryggva hafi séð færi á að losa hann undan áratugastarfi við Gránufélagið og efla þess í stað ,,félag góðra manna“ í Reykjavík. Áðurnefndir menn, auk landshöfðingjans sjálfs, hvöttu Tryggva einnig til þingframboðs, en Magnús var þá að mynda hóp í kringum sig sem varð síðar að meginstoð Heimastjórnarflokksins, forvera Íhaldsflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að Tryggvi var mjög vel tengdur í embættismannasamfélaginu í Reykjavík og skyldur eða í vinskap við landshöfðingja, landshöfðingjaritara, amtmann, biskup og verðandi biskup, verðandi rektor Lærða skólans og Háskóla Íslands, ritstjóra víðlesnasta blaðs landsins, héraðslækninn í Reykjavík og verðandi landlækni og áhrifamann í Söfnunarsjóði Íslands og gæslustjóra Landsbankans.

Mynd: Tengslanet Tryggva Gunnarssonar þegar hann fær starf bankastjóra Landsbankans 1893. Rauðár línur eru fjölskyldutengsl en bláar um önnur tengsl, t.d. pólítísk eða viðskiptaleg. Magnús Stephensen er landshöfðingi, Björn Jónsson var ritstjóri Ísafoldar, Hallgrímur Sveinsson biskup, Eiríkur Briem, kennari við Prestaskólann, forstöðumaður Söfnunarsjóðs Íslands og þingkjörinn gæslustjóri Landsbankans, Hannes Hafstein landshöfðingjaritari, Þórhallur Bjarnason var kennari við Prestaskólann og forstöðumaður hans og þingmaður frá 1894 (síðar biskup), Theodór Jónassen var amtmaður, Jónas Jónassen var héraðslæknir í Reykjavík, þingmaður til 1892 og landlæknir frá 1895 og Björn M. Olsen varð rektor Lærða skólans árið 1895 (síðar rektor HÍ).

Fram kom í bréfi Þórhalls til Tryggva tengdaföður síns í júní 1892, þ.e. rúmu ári áður en Tryggvi var formlega ráðinn bankastjóri Landsbankans, að hann ætti stöðuna vísa: ,,Bankastjórnin er þér viss … Landshöfðingi gat eigi skírar um það talað, en hann kvað að við mig nýskeð. Vitanlega talaði hann sem sá veitandi embættismaður: ,,af þeim sem hingað til hafa verið taldir væntanlegir að sækja“. Berðu mig samt eigi fyrir.“ [21]

Magnús Stephensen landshöfðingi var sjálfur af valdamestu ætt 19. aldar og átti embættisframa sinn undir frændum sínum, þeim Oddgeiri Stephensen og Hilmari Stephensen, forstöðumönnum íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn. Faðir Magnúsar og Oddgeir vorur bræðrasynir, en Oddgeir skipaði Magnús í stöðu dómstjóra og amtmanns. Magnús og Hilmar voru bræðrasynir og miklir vinir, en Hilmar skipaði Magnús landshöfðingja 1886.[22] Í bókinn Íslensk ættarveldi segir að Magnús hafi verið alræmdur fyrir að hygla ættingjum og venslafólki við embættisveitingar, starfsráðningar og úthlutanir styrkja. Er þar nefnt dæmi um þetta strax í upphafi landshöfðingjaferils Magnúsar þegar hann krafðist þess að Theódór Jóhansen mágur sinn tæki við amtmannsembættinu af sér, en dönsk stjórnvöld höfðu í hyggju að skipa annan mann í embættið.[23] Þá gerði hann Hannes Hafstein að landshöfðingjaritara 1889, skömmu eftir að Hannes kvæntist frænku Magnúsar. Tryggvi gekk inn í þetta umhverfi og var engu ragari við að velja sér nákomna til trúnaðarstarfa í bankanum. Þannig sóttist hann t.d. eftir að ráða Gunnar Havstein, frænda sinn og bróður Hannesar Hafstein til bankans þegar hann hafði tapað starfsmönnum til hins nýja keppinautar, Íslandsbanka, árið 1904.[24] Eins fól hann Eggerti Claessen, frænda sínum innheimtu víxla og skuldabréfa Landsbankans sem gaf góðar tekjur.[25] Þá segir í ævisögu Tryggva að við stofnun útibúa á Ísafirði hafi verið komið upp „hálfgerðu gæðingaveldi.“[26] Þessir starfshættir sættu gagnrýni að hálfu þeirra sem stóðu utan klíkunnar, ekki síst þeirra sem töldust til Valtýinga, t.d. Valtýs Guðmundssonar sjálfs, Skúla Thoroddsen og Páls Briem. Þannig skrifaði sá síðastnefndi í einkabréfi 1902: ,,Embættisveitingar, starfsveitingar, styrkveitingar fara eigi eftir hæfileikum heldur pólitískum skoðunum, pólitískum ákafa, mægðum og vináttu við áköfustu menn flokkanna og þá flokksmenn sem hafa opna pyngjuna mest.“[27]

Gagnrýni á störf Tryggva

Það leið ekki á löngu frá því að Tryggvi Gunnarsson tók við starfi bankastjóra árið 1893 þar til að gagnrýni tók að vakna. Á Alþingi 1897 lagði Guðlaugur Guðmundsson fram þingsályktunartillögu um lánsstofnun og í framsöguræðu beindi hann spjótum að Tryggva: „Svo hefir bankinn og teppt fje sitt, með því að vera sjálfur í fasteignafyrirtækjum og ýmiskonar atvinnurekstri, þótt slíkt brall hans kunni að vera meira eða minna leppað.“ Síðar í sömu umræðu sagði Guðlaugur:

Það mundi gjöra duglegum mönnum, sem við landbúnað fást, fært að ráðast í stórfyrirtæki, sem nú eru óhugsandi fyrir alla aðra en einstaka menn, sem kunna að vera sjerstaklega í náðinni hjá bankastjórninni. … Bankinn mun hafa veitt stöku mönnum nokkur hlunnindi í þessu efni, og hefir af sumum verið kallaður hlutdrægur fyrir bragðið.[28]

Á sama þingi lögðu þrír þingmenn, þeir Skúli Thoroddsen, Klemens Jónsson og Guðlaugur Guðmundsson, fram fyrirspurn til landshöfðingja þar sem spurt var hvort farið væri eftir 1. gr. laga nr. 24 frá 1891 þar sem segði að framkvæmdastjóri Landsbankans mætti aldrei hafa embættisstörf eða önnur atvinnustörf á hendi. Skúli var flutningsmaður fyrirspurnarinnar og benti á að Tryggvi Gunnarsson hefði ,,hlaðið á sig fjölda aukastarfa, bæði launuð og ólaunuð“, hann væri formaður Íshússfélagsins sem geymdi vörur en stæði auk þess í verslun með kjöt og fisk, hann ætti tvö þilskip og þá væri almælt að hann væri eigandi eða umboðsmaður timbursölu. Eins gæfi hann sig að vörupöntunum ýmis konar og byðist til að panta fyrir menn vindla, ofna, þakjárn og aðra hluti. Þannig gerði bankastjórinn sig að atvinnukeppinaut annarra sem þyrftu að leita til hans varðandi viðskipti í Landsbankanum. Auk þess væri Tryggvi þingmaður, bæjarfulltrúi, formaður útgerðarmannafélags, í stjórn Þilskipaábyrgðarfélagsins, auk þess að vera viðriðinn fleiri félög.[29] Allt þetta umfangsmikla vafstur bankastjórans skapaði hættu á hagsmunaárekstrum: ,,Getur ekki hjá því farið, að honum lendi á stundum í deilu við ýmsa, skapi sjer vini og óvini, og getur slíkt haft óheppileg áhrif á stjórn hans á bankanum; en á því ríður hvað mest, að þar geti engin hlutdrægni komist að, eða menn hafi ástæðu til að gruna slíkt.“[30] Tryggvi Gunnarsson tók sjálfur til máls í þessari umræðu og sagði menn mis afkastamikla og að einn maður gæti jafnvel stundum afkastað eins miklu og fjórir menn. Sjálfur hefði hann haft erfiðara verk með höndum en rekstur bankans.[31] Þá vakti Skúli Thorodsen athygli á kaupum Landsbankans á húsi Hannesar Hafstein, náins bandamanns og systursonar Tryggva, þegar hann hafði verið skipaður sýslumaður á Ísafirði. Tryggvi sagði að húsið hefði verið keypt til að byggja hús fyrir Landsbankann á lóðinni, en vegna breyttra forsendna hefði verið snúið frá þeim fyrirætlunum og húsið selt aftur, bankanum að ,,skaðlausu.“[32]

Áframhald varð á átökunum um störf Tryggva þegar Alþingi kom saman 1899. Nú var Landsbankinn orðinn uppiskroppa með lánsfé og komin upp „peningavandræðin í bankanum“, eins og Guðlaugur Guðmundsson orðaði það. Hann sagði stöðuna miður heppilegri stjórn bankans að kenna þar sem hann hefði ýtt undir ,,spekulationsanda“ frá 1896 fram í ársbyrjun 1898, þegar heppilegra hefði verið að draga úr en æsa. Auk þess hefði bankastjórnin átt að bregðast við miklu útstreymi fjármagns með vaxtahækkunum. Það er fróðlegt að skoða svör Tryggva Gunnarssonar við þessu:

Eg viðurkenni að þetta er satt, slíkt er alvenja í útlöndum, en mælist mjög illa fyrir hér á landi. Eg man eftir því frá barnsaldri mínum til þessa dags, að þegar kaupmenn selja nauðsynjavörur allar dýrari á veturna en á sumrin, þá kallar almenningur það að nota sér neyð annara. Sama vitnisburð hefði bankinn fengið, hefði hann sett upp rentuna í 5½ eða 6%, einsog hún er bæði í Danmörku og Noregi.[33]

Tryggvi sagði að það hefði verið möguleiki að ganga harðar að lántakendum sem stæðu ekki í skilum, t.d. með sölu á veðsettum jörðum. Bankinn hefði getað selt tugi jarða en það áliti hann ekki rétt. Það sama ætti við um vaxtahækkun í 6%: ,,Og almenningsálitið sé með því, að það hafi verið réttara, að bankinn færi vægilega í sakirnar, og hlífðist við að gjöra menn gjaldþrota fyrri en í fulla hnefana.“ Á þessu sama þingi var Tryggvi sjálfur framsögumaður frumvarps í neðri deild um 250.000 kr. seðlaútgáfu Landsbankans sem sumir þingmenn andmæltu af ótta við að það myndi leiða til vantrausts og verðfalls á krónunni. Í umræðu um frumvarpið sagði hann að ástandið væri þannig að fáir gætu borgað bankanum skuldir sínar og þá væri ekki um annað að velja en annað hvort að auka seðlaútgáfuna eða þá að bankastjórnin yrði að ganga hart að lántakendum, ,,að þeir borgi, og það strax í haust“ og síðar sagði hann að ef þingið felldi frumvarpið þá lægi ekki annað fyrir en að bankinn yrði:

með harðri hendi að heimta inn eitt eða tvö hundruð þúsund kr. til að geta staðið í skilum við sparisjóðseigendur … en þá verður það ekki bankastjórninni að kenna, sem nú varar menn við, heldur eiga landsmenn það upp á þingið, það verður því um að kenna, ef bankinn verður að höfða mál gegn mörgum mönnum út um landið, sem ekki hafa getað staðið í skilum, og líklega eiga erfitt með að borga skuldir sínar.[34]

Í umræðu um sama frumvarp tók Valtýr Guðmundsson til máls og sagðist hann hafa svo mikla ótrú á bankastjóranum að hann vildi ekki fá honum meira fé í hendur, enda hefði bankastjórnin farið illa með það fé sem hún hefði þá þegar til umráða. Nefndi hann sem dæmi um þetta að stórum hluta varasjóðs hefði verið varið til húsbyggingar fyrir höfuðstöðvar bankans og þá hefði bankastjórnin sýnt töluverða hlutdrægni í lánveitingum. Nefndi Valtýr sérstaklega að nýlega hefði manni verið neitað um framlengingu á víxli, en hann hefði áður skrifað um bankamálið ,,öðruvísi en bankastjórninni var geðfelt.“[35] Skúli Thoroddsen tók til umfjöllunar stöðu endurskoðunarmanns Landsbankans, en það hafi orðið nokkurskonar aukabiti við landritaraembættið að hans sögn. Það hafi verið sérstaklega óviðkunnanlegt meðan landritarinn ,,var mjög nákominn bankastjóra.“[36] Átti hann þar við Hannes Hafstein.

Barist um bankavaldið

Þetta sama ár sóttust Danirnir Danirnir Ludvig Arntzen og Alexander Warburg eftir því að fá að stofna einkabanka hér á landi og tóku Valtýingar upp málstað þeirra á Alþingi og lögðu fram frumvarp 1899 um heimild til stofnunar hlutafélagsbanka. Hófst þar með löng og flókin deila milli Heimastjórnarmanna og Valtýinga um framtíð bankakerfisins. Heimastjórnarmenn voru komnir í þá stöðu að geta beitt fé og áhrifum sínum innan bankakerfisins til að hafa áhrif á stjórnmálin. Jón Guðnason orðar það svo í ævisögu Skúla Thoroddsen að Heimastjórnarmenn hafi átt digrar innistæður auk þess sem þeir hafi ráðið stjórnvaldinu, peningastofnunum og stærstu verslununum, bæði selstöðuverslunum og kaupfélagsverslunum. Þá kemur fram í bréfi að Lárus Bjarnason, eiginmaður systur Hannesar Hafstein og frænku þeirra Tryggva og Eiríks Briem, hvatti Tryggva til að beita Landsbankanum í kosningabaráttunni 1902: ,,Þér og samstjórnendur yðar á bankanum hafið eitthvert bezta vopnið á andstæðinga okkar. Það eru útibúin frá bankanum. Blessaðir auglýsið þér sem fyrst í blöðunum, að stofnuð verði útibú á Akureyri og Seyðisfirði. Komi eitthvað seinna fyrir, er drægi útibúastofnunina, mætti birta það seinna.“[37] Þá kemur fram í bréfaskrifum Tryggva Gunnarssonar sjálfs 1903 að peningum hafi verið beitt í kosningum, en í bréfinu syrgði hann að Valtýr Guðmundsson hefði náð kjöri til Alþingis, þrátt fyrir að peningar hafi ekki verið sparaðir af hans hálfu til að fyrirbyggja það.[38] Í kjölfar kosningasigurs Tryggva í Reykjavík árið 1900 skrifaði Björn Jónsson ritstjóri í bréfi til Valtýs, en þeir voru þá orðnir bandamenn í stjórnmálum, að atkvæði kjósenda hefðu verið keypt af ,,svívirðilegu auðlegðar kúgunarvaldi. Auk framangreindra tilfella mun mega constatera nokkur kúgunar- og hótunartilfelli með atvinnutjóni, reiði bankastjóra m.m.“[39] En Valtýingar höfðu ekki tekið málstað nýs banka á sínar herðar til þess að minnka tengsl stjórnmála og bankakerfis, þvert á móti. Fram kemur í bréfaskiptum Björns og Valtýs árið 1904 að þeim var mjög umhugað um að þeirra bandamenn veldust til forystu og almennra starfa hjá Íslandsbanka. Þannig segir Valtýr t.d. að mikilvægt sé að þiggja boð Schou bankastjóra um að staða endurskoðanda bankans ,,lenti á okkar manni“ og Páll Briem var þeirra fulltrúi í stöðu bankastjóra: ,,Páll Briem er allur okkar megin, totaliter. Eg veit ekki betur en að hann hafi fult eins slæmt álit á Hannesi Hafstein eins og við.“[40] Fáum dögum síðar segir Björn frá því að Hannes Hafstein hafi séð til þess að Júlíus Havsteen, frændi sinn, fengi endurskoðendastöðuna en aftur á móti hafi menn þeirra Björns og Valtýs verið settir yfir útibúin á Seyðisfirði, Akureyri og Ísafirði, ,,alt í móti vilja Hannesar.“[41] Það fór þó svo að lokum að Heimastjórnarmenn náðu nær fullum tökum á báðum bönkunum og segir í Þjóðviljanum 9. mars 1904 að allir bankaráðsmenn Íslandsbanka komi úr röðum heimastjórnarmanna og í Landsbankanum séu bankastjórinn, endurskoðunarmenn og annar gæslustjórinn úr þeirra flokki.[42] Jón Guðnason telur að þessi þróun hafi orðið heimastjórnarmönnum pólitískur ávinningur á heimastjórnartímanum, sem átti eftir að reynast mikill framkvæmdatími með tilheyrandi peningaþörf. Þetta hafi Valtýingum þótt súrt í broti þar sem þeir hafi barist fyrir stofnun Íslandsbanka í andstöðu við Heimastjórnarmenn og ,,ætlað sér þar hreiður.“[43]

Niðurstöður

Það var fámenn, valdamikil og samheldin embættismannastétt í Reykjavík, með landshöfðingja í broddi fylkingar, sem sá til þess að fyrsti íslenski bankinn yrði undir pólitískri yfirstjórn hennar. Þrátt fyrir kröfu á Alþingi um að fyrsti bankastjórinn yrði erlendur sérfræðingur í bankarekstri þá var bankinn svo að segja innlimaður í valdakerfi embættismannastéttarinnar og einn af æðstu embættismönnum landsins gerður að bankastjóra. Þannig barðist elíta þess tíma gegn tilraunum til að koma á bankakerfi sem byggði á fagþekkingu og verðleikaræði.

Næst þegar bankastjórastaðan losnaði var Magnús Stephensen orðinn landshöfðingi og kominn í forystu embættismannastéttarinnar, enda nátengdur mörgum af helstu embættis- og fjármálamönnum landsins á þessum tíma. Af fjölmörgum umsækjendum um bankastjórastöðuna, sumum með menntun í hagfræði eða reynslu af bankastarfsemi, valdi Magnús til starfans Tryggva Gunnarsson, mann sem var kominn í vandræði í eigin verslunarrekstri og bjó hvorki yfir langskólamenntun né reynslu af bankarekstri. En hann var hins vegar úr innsta hring landshöfðingja og naut vinskapar hans og mikilvægra mægða og fjölskyldutengsla. Hugmyndin um fagþekkingu og verðleikaræði var því heldur ekki viðhöfð við ráðningu bankastjóra Landsbankans 1893. Ráðning Tryggva Gunnarssonar markaði talsverð skil í starfsemi Landsbankans, ekki síst þar sem Tryggvi tók sjálfur mjög virkan þátt í atvinnulífinu og var miklu harðskiptari í stjórnmálum en forveri hans í bankanum. Þannig var bankinn dreginn inn á hið pólitíska svið með mjög afgerandi hætti. Þess sést vel á því hvernig Tryggvi ræddi viðskipti einstakra manna opinberlega, beitti hótunum á Alþingi um harðari aðgerðir gegn skuldurum ef frumvarp hans um fjármögnun bankans yrði ekki samþykkt og því hvernig hann virðist hafa haldið aftur af vaxtahækkunum til að forðast þá óánægju sem hún gæti skapað meðal almennings. Tryggvi notaði einnig aðstöðu sína í bankanum til að tryggja pólitískum bandamönnum störf innan bankakerfisins og styrkti þannig efnahagslega og félagslega stöðu Heimastjórnarmanna í samfélagi þar sem örugg og vel launuð störf voru af skornum skammti.

Landsbankinn sleit barnsskónum á því tímabili þegar átakalínur í íslenskum stjórnmálum voru að skýrast milli tveggja fylkinga og bankinn varð ein af valdastoðum Heimastjórnarmanna nokkrum árum eftir stofnun. Þetta gerði það að verkum að hér þróaðist ekki sjálfstætt bankakerfi sem byggði á faglegum rekstrarforsendum, auk þess sem stjórnmálakerfið rann saman við bankakerfið í stað þess að stjórnmálamenn litu á það sem hlutverk sitt að búa til vandaða lagalega umgjörð um bankakerfið með virku og faglegu aðhaldi laga- og framkvæmdavalds. Í kjölfarið urðu átök flokka og valdahópa þeim tengdum um bankavaldið að gegnumgangandi stefi í íslenskum stjórnmálum, stefi sem átti stóran þátt í því að valda tíðum efnahagslegum áföllum á 20. öld og að lokum efnahagshruni árið 2008.

Heimildir:

[1] Alþingi, Skýrsla Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. 8. bindi, 2008, bls. 132.
[2] Guðmundur Jónsson, Hagvöxtur og iðnvæðing — þróun landsframleiðslu á Íslandi 1870–1945, Reykjavík 1999, bls. 177.
[3] Már Guðmundsson, ,,Gjaldmiðillinn og íslenska fjármálakerfið“, Peningamál (September 2004), bls. 77–81.
[4] Stefán Einarsson, Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge, Reykjavík 1933, bls. 235.
[5] Þjóðólfur, 24. maí 1876, bls. 73.
[6] Alþingistíðindi 1885, Neðri deild, bls. 236.
[7] Alþingistíðindi 1885, Efri deild og sameinað þing, bls. 633.
[8] Guðjón Friðriksson, Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar. 1870–1940. Fyrri hluti, Reykjavík 1991, bls. 7.
[9] Sigrún Pálsdóttir, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar, Reykjavík 2010, bls. 142–143.
[10] Þorsteinn Thorarensen, Móralskir meistarar, Reykjavík 1967, bls. 212
[11] Ólafur Ragnar Grímsson, The Icelandic Power Structure 1800–2000, Reykjavík 1976 , bls. 16.
[12] Þorsteinn Thorarensen, Móralskir meistarar, Reykjavík 1967, bls. 7.
[13] Bergsteinn Jónsson o.fl., Reykjavík, miðstöð þjóðlífs, Reykjavík 1977, bls. 99.
[14] Alþingistíðindi 1899, neðri deild, bls. 566.
[15] Sama rit, bls. 819.
[16] Þjóðviljinn ungi, 27. nóvember 1891, bls. 32–33.
[17] Bergsteinn Jónsson, Tryggvi Gunnarsson. Athafnamaður og bankastjóri, Reykjavík 1990, bls. 168–170.
[18] Sama rit, bls. 284.
[19] Sama rit, bls. 269.
[20] Sama rit, bls. 320–321.
[21] Óskar Guðmundsson, Brautryðjandinn. Ævisaga Þórhalls Bjarnasonar, Reykjavík 2011, bls. 231.
[22] Þorsteinn Thorarensen, Í fótspor feðranna, Reykjavík 1966, bls. 150.
[23] Guðmundur Magnússon, Íslensk ættarveldi. Frá Oddverjum til Engeyinga, Reykjavík 2012, bls. 110.
[24] Bergsteinn Jónsson, Tryggvi Gunnarsson. Athafnamaður og bankastjóri, Reykjavík 1990, bls. 432.
[25] Guðmundur Magnússon, Claessen. Saga fjármálamanns, Reykjavík 2017, bls. 112.
[26] Bergsteinn Jónsson, Tryggvi Gunnarsson. Athafnamaður og bankastjóri, Reykjavík 1990, bls. 432.
[27] Guðmundur Magnússon, Íslensk ættarveldi. Frá Oddverjum til Engeyinga, Reykjavík 2012, bls. 153.
[28] Alþingistíðindi 1897, Neðri deild, bls. 1651.
[29] Sama rit, bls. 1702–1703.
[30] Sama rit, bls. 1707–1708.
[31] Sama rit, bls. 1718.
[32] Sama rit, bls. 1742.
[33] Alþingistíðindi 1899, Neðri deild, bls. 247.
[34] Sama rit, bls. 1225.
[35] Sama rit, bls. 424.
[36] Sama rit, bls. 218.
[37] Jón Guðnason, Skúli Thoroddsen II, Reykjavík 1974, bls. 271.
[38] Jón Þ. Þór, Dr. Valtýr. Ævisaga, bls. 222.
[39] Jón Þ. Þór, Launráð og landsfeður. Bréfaskipti Björns Jónssonar og Valtýs Guðmundssonar, Reykjavík 1974, bls. 142–143.
[40] Sama rit, bls. bls. 255.
[41] Sama rit, bls. 259–262.
[42] Þjóðviljinn. 9. mars 1904, bls. 35.
[43] Jón Guðnason, Skúli Thoroddsen II, Reykjavík 1974, bls. 447.

--

--

Guðmundur Hörður
Guðmundur Hörður

Written by Guðmundur Hörður

Hér skrifa ég pistla um sagnfræðileg efni, en almenna bloggpistla birti ég á gudmundurhordur.blogspot.com