Maðurinn sem kunni ekki að segja nei

Guðmundur Hörður
9 min readJun 21, 2023

--

Ég ímynda mér að ævi Jóhannesar Nordal sé efniviður í meiriháttar pólitískt drama. Þá á ég við eitthvað í anda Borgen eða House of Cards. Maðurinn var bankastjóri stærsta viðskiptabankans og síðar Seðlabankans í áratugi og stjórnarformaður stærsta orkufyrirtækis landsins í þrjátíu ár. Hann var efnahagsráðgjafi og persónulegur vinur fjölmargra helstu stjórnmálaleiðtoga borgaralegu flokkanna sem sóttust eftir að fá hann á framboðslista og buðu honum meira að segja stól forsætisráðherra — og eiginlega annað hvert starf sem losnaði í efstu lögum stjórnkerfisins ef marka má bókina. Og svo virðist sem Jóhannes hafi verið sú manngerð sem kunni ekki — eða kunni ekki við — að segja nei því það hlóðust á hann ábyrgðahlutverkin, sum hver sem hafa vart farið saman í nútímaljósi. Að minnsta kosti þætti það varla við hæfi í dag að einn og sami maðurinn gætti efnahagslegs stöðugleika sem Seðlabankastjóri á sama tíma og hann leiddi stærstu fjárfestingar þjóðarinnar í hlutverki sínu sem stjórnarformaður Landsvirkjunar.

En þrátt fyrir veigamikið hlutverk Jóhannesar í valdakerfinu þá stendur ævisagan Lifað með öldinni ekki undir væntingum um pólitískt drama eða sögulegar uppljóstranir. Hún er aftur á móti gott yfirlitsrit fyrir alla þá sem hafa áhuga á stjórnmála- og efnahagssögu 20. aldar.

Stjórnmálasagan

Stjórnmálasagan í Lifað með öldinni er íslensk yfirstéttarsaga. Þannig dvelur Jóhannes langdvölum erlendis við nám frá 1943–1953, eitthvað sem var sjaldgæft í þá tíð, og þegar hann snýr aftur heim með doktorspróf upp á vasann beið hans örugg stjórnunarstaða í Landsbankanum, lang stærsta viðskiptabanka þess tíma þar sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur og fyrirtækjaklíkur þeirra fóru með töglin og hagldirnar. Hann varð einn af þremur bankastjórum bankans árið 1959, skipaður af Emil Jónssyni, formanni Alþýðuflokksins sem var þá forsætisráðherra í bráðabirgða minnihlutastjórn. Þannig vildi til að Emil hafði sjálfur tekið að sér bankastjórastöðuna í Landsbankanum en þurfti nú að finna mann til að leysa sig af og þá hafði Jóhannes allt til brunns að bera, vel menntaður og reynslumikill og eflaust hefur ekki skemmt fyrir að hann var góðvinur Gylfa Þ. Gíslasonar, þáverandi þingmanns Alþýðuflokksins og ráðherra bankamála. Afleysingastaðan í bankastjórninni átti síðan eftir að reynast varanleg þar sem Emil Jónsson gegndi ráðherrastörfum í Viðreisnarstjórninni sem sat að völdum frá 1959 til 1971 og átti því ekki afturkvæmt í bankann.

Vinirnir Jóhannes Nordal og Gylfi Þ. Gíslason voru báðir langskólagengnir og af fámennri borgarastétt þess tíma. Þeir sameinuðust m.a. í áhuga á menningarmálum, þar á meðal í bókaútgáfu á vegum Almenna bókafélagsins. Myndin er tekin þegar íslenskir bankar gáfu ríkinu Skarðsbók sem keypt hafði verið á uppboði í London. Áhugi þeirra beggja á frjálsari milliríkjaviðskiptum höfðu mikil áhrif á efnahagsstefnu Viðreisnarstjórnarinnar sem leiddi til þess að Ísland varð aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) árið 1970. Myndin er úr Alþýðublaðinu 1965.

Jóhannes hafði ekki setið lengi í bankastjórninni þegar hann taldi réttilega að ástæða væri til að kanna möguleikann á því að gera upp Kveldúlf, fjölskyldufyrirtæki Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem var einn stærsti skuldari bankans og hafði verið rekið með sífelldu tapi eftir að fyrirtækið hafði fjárfest mikið í tengslum við veiðar á skammvinnri göngu síldar inn á Faxaflóa. Taldi Jóhannes því eðlilegt að leysa vanda félagsins og bankans með því að selja eignir þess upp í skuldir og halda einungis gangandi þeim rekstri sem gæti mögulega staðið undir sér. Það sem á eftir fylgdi kjarnar kannski vanda íslenskrar hagstjórnar á síðari hluta 20. aldar þar sem persónuleg og pólitísk tengsl réðu meiru en dómgreind og skynsemi. Jóhannes nefnir að Pétur Benediktsson, einn af bankastjórum Landsbankans, tengdasonur Ólafs Thors og bróðir Bjarna Benediktssonar, hafi ekki talið sig geta haft afskipti af málinu og látið Jóhannes um framgang þess. Jóhannes gekk því á fund Ólafs Thors þar sem hann segist hafa fallið fyrir persónutöfrum Ólafs. Það voru einmitt þessir persónutöfrar og atvinnurkendavald Ólafs í gegnum stærsta fyrirtæki landsins sem gerðu Sjálfstæðisflokkinn að því pólitíska stórveldi sem hann var á síðari helmingi 20. aldar og allt fram að efnahagshruni 2008. Eftir fundinn með Ólafi varð ekkert af fjárhagslegu uppgjöri Kveldúlfs og var því frestað þar til að nokkrum árum eftir andlát Ólafs þó að forsendur fyrir rekstri félagsins hafi löngu verið úr sögunni. Það er síðan rannsóknarefni hvað þessi töf á uppgjöri Kveldúlfs hefur kostað Landsbankann og hið smáa íslenska hagkerfi þó að það hafi verið látið svo heita að fyrirtækið hafi að lokum verið gert upp á jöfnu.

Þó að Jóhannes hafi sannarlega verið hluti af valdakerfi þessa tíma þá fjallar hann um það á heiðarlegan hátt, t.d. hvernig helmingaskiptakerfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði víðtæk áhrif í samfélaginu, þar á meðal í svonefndri Húsnæðismálastjórn sem úthlutaði fjármagni til húsnæðisuppbyggingar á 6. áratugnum, en mikill skortur var þá af hvoru tveggja og bjó fjöldi fólks enn í bröggum og öðru heilsuspillandi húsnæði:

„Í stað þess að settar væru almennar reglur um mat umsókna og reynt að úthluta lánum sem næst í samræmi við þær, var tveimur stjórnarmönnum, hvorum úr sínum stjórnarflokknum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, falið úrskurðarvald um úthlutun lána. Þeir skiptu tiltæku lánsfé á milli sín í tvo jafnstóra hluta sem þeir síðan útdeildu til umsækjenda eftir geðþótta og pólitískri hentisemi.“ — bls. 252.

Bókin veitir líka ágæta innsýn inn í það hvernig stjórnmálaflokkarnir fóru með valdastöður innan bankakerfisins sem sína eign. Sú saga er auðvitað vel þekkt en það eru nokkur atriði sem kunna að hafa legið í þögn þar til nú. Þannig segir Jóhannes t.d. frá því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra hafi boðað Jón G. Maríasson, einn af þremur bankastjórum Seðlabankans, á sinn fund fyrir tvísýnar kosningar 1967 og beðið hann um að segja af sér, en Jón átti ekki langt í eftirlaun. Vildi Bjarni losa stöðuna svo að flokkurinn gæti skipað nýjan mann í hans stað og tryggt sér þannig seðlabankastjórastólinn sem annars gæti fallið í skaut annars flokks ef Sjálfstæðisflokkurinn tapaði kosningunum og hinum tæpa meirihluta sem Viðreisnarstjórnin hafði þá. Jón varð við þessari ósk Bjarna og í hans stað var Davíð Ólafsson skipaður seðlabankastjóri, en hann hafði verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 1963. Eins greinir Jóhannes frá því að Bjarna Benediktssyni hefði þótt vont að Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi forseti, hafi hringt í hann eftir andlát Péturs bankastjóra Landsbankans, bróður Bjarna, til að tala máli Gunnars Thoroddsen tengdasonar síns sem sóttist þá eftir stöðunni. Báðar þessar frásagnir eru vitnisburður um það hversu mikilvægar bankastjórastöður voru í valdatafli stjórnmálanna á 20. öld. Um þetta voru allir stjórnmálaflokkar þess tíma sekir þó að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafi verið þarna áhrifamestir og átt mestra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Hún er þannig dæmalaus lýsingin á því hvað Lúðvík Jósepsson, ráðherra Alþýðubandalagsins, lagði á sig til að koma ómenntuðum manni í bankastjórastöðu undir lok valdaskeiðs vinstristjórnarinnar 1971 til 1974:

„Skipun Guðmundar í stöðu bankastjóra fékk hins vegar ekki nægilegan stuðning bankaráðs Útvegsbankans, þótt stjórnarflokkarnir hefðu þar meirihluta, en bankaráð viðskiptabankanna höfðu endanlegt skipunarvald í bankastjórastöður án aðkomu ráðherra. Þegar ljóst þótti að Guðmundur yrði hvorki bankastjóri yfir Útvegs- né Búnaðarbanka tók Lúðvík Jósepsson viðskiptaráðherra af skarið og skipaði hann bankastjóra Seðlabankans, í andstöðu við meirihluta bankaráðs.“ — bls. 583.

Jóhannes öðlaðist snemma traust allra forystumanna borgaralegu flokkanna, þ.e. Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það sem meira er þá varð hann persónulegur vinur þeirra margra, þar á meðal Bjarna Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar. Það er einmitt umhugsunarvert hvort Jóhannes hafi ekki orðið of vinsamlegur þeim. Þannig verða persónulýsingar í bókinni á leiðtogum hægri manna stundum óþægilega mærðarlegar á meðan t.d. róttækari stjórnmálamenn á vinstri vængnum fá óvægnari og allt að því ósanngjarna umfjöllun. Þannig segir Jóhannes t.d. um Bjarna Benediktsson að hann hafi sóst eftir að leita sátta milli stríðandi hagsmuna undir leiðsögn réttsýns ríkisvalds sem hafi þó ekki verið „of afskiptasamt um málefni manna.“ Þetta hljómar nánast eins og háð í ljósi síðari tíma uppljóstrana um að símar pólitískra andstæðinga Bjarna hafi verið hleraðir á þeim tíma sem hann var dómsmálaráðherra. Það kveður síðan við allt annan tón í lýsingum Jóhannesar á þeim stjórnmálamönnum sem gagnrýndu framgöngu hans, t.d. í virkjana- og orkusölumálum á vegum Landsvirkjunar. Þannig er það t.d. tekið fram í umfjöllun um Magnús Kjartansson, ritstjóra Þjóðviljans og ráðherra Alþýðubandalagsins, að Bretar hafi handtekið hann um borð í Esju eftir stríðslok á leið til Íslands „vegna grunsemda um samstarf við Þjóðverja.“ Þó að það segi síðan að Magnús hafi losnað úr haldi án kæru þá vantar í þessa frásögn að handtakan hafi verið ástæðulaus og engar heimildir séu til um tengsl Magnúsar við málstað nasista, nema síður sé. Þannig að þó að Jóhannes sé grandvar í umfjöllun um menn og málefni þá læðist að manni sá grunur að hann hafi aldrei tekið sína hörðustu gagnrýnendur og andstæðinga á hinum pólitíska vettvangi í fulla sátt.

Efnahagssagan

Jóhannes Nordal hafði margvísleg jákvæð áhrif á efnahagslíf Íslendinga í gegnum tíðina, ekki síst með því að boða mikilvægi aðhaldssemi í opinberum fjármálum og brýna nauðsyn þess að koma á frjálsari viðskiptum milli landa. En þrátt fyrir það er hann líklega helst minnst í efnahagssögunni sem Seðlabankastjórans sem stóð í stöðugri baráttu við svonefnda víxlverkun verðlags og launa. Í goðsögninni sem atvinnurekendur og fulltrúar þeirra í stjórnmálastétt hafi búið til um heimtufreku launþegana sem valda hverju verðbólguskotinu á fætur öðru með óhóflegum kröfum um launahækkanir hefur Jóhannes fengið hlutverk gríska guðsins Sisýfos sem lifði við þá bölvun að þurfa endurtekið að rúlla steini (efnahagsumbóta) alveg upp að fjallsbrúninni bara til að horfa á hann rúlla niður aftur (vegna frekju launþega). En eins og kemur skýrt fram í frásögn Jóhannesar þá voru miklu flóknari og fjölbreyttari ástæður fyrir því að steinninn rúllaði alltaf niður hlíðina aftur. Um það fjallar hann m.a. í umsögn sinni um efnahagsstefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1950–1956, sem var þó skipuð mönnum sem hann hafði lýst persónulegri aðdáun sinni á:

„Sífelld togstreita milli þessara tveggja stærstu flokka landsins og kapphlaup um að þjóna þeim hagsmunum sem á bak við þá stóðu hafði leitt til ofuráherslu á framkvæmdir og fyrirgreiðslu, jafnframt því sem lítið var hugsað um að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum … Þess vegna stóðu stjórnvöld nú, eftir einhver mestu hagvaxtarár Íslandssögunnar, frammi fyrir stórfelldum efnahagsvanda“. — bls. 269

Og orð Jóhannesar um viðbrögð stéttarfélaga við efnahagslegri óstjórn þessarar hægri stjórnar gætu allt eins átt við efnahagslegt þensluástand hagkerfisins í dag:

„Hér hlaut því eitthvað undan að láta, hvað sem pólitískum skoðunum verkalýðsforystunnar leið, enda þess varla að vænta að verkalýðsfélög komi með hóflegum launakröfum í veg fyrir jafnvægisleysi sem þenslustefna stjórnvalda hefur átt drýgstan þátt í að skapa.“ — bls. 264.

Núverandi Seðlabankastjóra er tamt að sveipa sig gervi Sisýfosar og grípa til víxlverkunarfrasans með þeim dramatísku viðvörunum að launahækkanir almennings séu að færa hagkerfið aftur um áratugi, til þess ástands þegar verðbólga var hér viðvarandi vandamál. Lifað með öldinni er þó ágætis yfirlit yfir það víxlverkanakerfi sem var þá við lýði, miklu flóknara kerfi en við búum við á vinnumarkaði í dag þar sem launþegar gera þó ekki mikið meira en að reyna að láta laun halda í við sífelldar verðlagshækkanir og stjórnlausan húsnæðismarkað. Þess vegna fær maður það á tilfinninguna eftir að hafa lesið frásagnir Jóhannesar að sífelld notkun víxlverkunarfrasans í dag byggi á misskilningi eða þá meðvituðum tilraunum til að hræða fólk frá ósköp eðlilegum kaupkröfum. Þannig lýsir Jóhannes t.d. virkni flókinna og marglaga víxlverkana verðbólguárið 1983:

„Fiskverð til sjómanna var hækkað mjög ríflega í janúar og því fylgdi gengisaðlögun til að bæta úrgerðunum aukinn kostnað sem aftur hafði áhrif á verðlagsvísitölu sem leiddi til hækkaðs kaups og svo koll af kolli. … Þannig höfðu samningar um almennar launahækkanir verkafólks í för með sér sjálfkrafa hækkanir á landbúnaðarvörum og hækkun útgerðarkostnaðar sem að lokum leiddi til kröfugerðar um gengislækkun og þar af leiðandi almenna hækkun innfluttra neysluvöru. Svipuð keðjuverkun gat einni farið af stað af öðrum orsökum svo sem verðhækkunum erlendis og/eða sveiflum í aflabrögðum.“ — bls. 666 og 667.

Jóhannes lýsir fleiri sérkennilegum millifærslukerfum sem voru orsök verðbólgu og vandræða í efnahagsmálum á þessum tíma, t.d. flóknum styrkjakerfum fyrir sjávarútveg, ríkisábyrgðum sem voru stór baggi á ríkissjóði og afurðalánum sjávarútvegs og landbúnaðar:

„Í því fólust sjálfvirk forréttindalán til ákveðinnar atvinnustarfsemi sem þar að auki voru með hagstæðari vöxtum en önnur bankalán. Sjálfvirkni lánanna dró um leið úr svigrúmi Seðlabankans til að hafa áhrif á peningamagn í umferð og þar með á stjórn peningmála.“ — bls. 680.

Út úr allri þessari sögu má því lesa áskorun til nútíma hagfræðinga að leggja ekki að jöfnu almennar kjaraviðræður í dag við það viðamikla kerfi millifærslna, tíðra gengisfellinga fyrir sjávarútveginn og flókinna víxlverkana sem viðgekkst hér á landi langt fram eftir 20. öldinni en var sem betur fer lagt af á 9. og 10. áratugnum. Líklega er verðtrygging lána það eina sem enn lifir af þessu millifærslukerfi 20. aldar, enda þjónar það hagsmunum þess atvinnuvegs sem varð einna áhrifamestur í lok 20. aldar og byrjun þessarar — fjármálafyrirtækjanna.

Jóhannes fór fremstur í flokki í nauðsynlegri gagnrýni á það flókna kerfi víxlverkana launa og verðlags sem ákvarðaði laun á íslenskum vinnumarkaði á sínum tíma. Kerfið hefur löngu verið aflagt og er ekkert líkt því sem nú er við lýði þó að talsmenn Samtaka atvinnulífsins og margir hagfræðingar tali eins og fátt hafi breyst og verðbólguhvatarnir þá og nú séu þeir sömu.

Hið ósagða

Hið ósagða segir líka stóra sögu í Lifað með öldinni. Þannig olli það mér vonbrigðum að gjaldþrot Útvegsbanka 1986 sé afgreitt á einungis tveimur blaðsíðum. Maður í stöðu Jóhannesar hefði getað gefið okkur miklu fyllri mynd af því sem gerðist bakvið tjöldin í hörðum átökum viðskiptablokka Sjálfstæðisflokksins um örlög bankans og Hafskips. Þá velti ég því fyrir mér hvað lesa má út úr því að Halldórs H. Jónssonar sé ekki getið í bókinni, en hann var líklega áhrifamestur í viðskiptalífinu lengst af þeim tíma sem Jóhannes stýrði Seðlabankanum og var auk þess stjórnarformaður ÍSAL þegar fyrirtækið samdi um raforkukaup við Landsvirkjun undir stjórnarformennsku Jóhannesar. Þeir tveir voru að minnsta kosti það nánir að Jóhannes var líkmaður við útför Halldórs árið 1991.

En líklega getur maður lesið það út úr því ósagða að Jóhannes hafi sannarlega verið sú manngerð sem valdakerfið gat treyst til að sinna vandasömum verkum í fullum trúnaði. Það verður maður víst að virða við hann þó að áhugafólk um sagnfræði sjái þarna á eftir dauðafæri til að fylla betur upp í stjórnmálasögu 20. aldar.

--

--

Guðmundur Hörður

Hér skrifa ég pistla um sagnfræðileg efni, en almenna bloggpistla birti ég á gudmundurhordur.blogspot.com