Kosningasvindlið í Hnífsdal

Guðmundur Hörður
13 min readOct 9, 2021

--

Nú er efast um trúverðugleika og réttmæti kosninga í Norðvesturkjördæmi og framkvæmd þeirra sætir rannsókn Alþingis og lögreglu. Þetta er ekki í fyrsta skipti í Íslandssögunni sem þessi staða kemur upp því að í kjölfar Alþingiskosninganna 1927 hófst málarekstur sem átti eftir að standa í þrjú og hálft ár og enda á borði kjörbréfanefndar Alþingis, Hæstaréttar og Scotland Yard. Þetta er hið svonefnda Hnífsdalsmál.

Gengið var til Alþingiskosninga sumarið 1927, en þá hafði hægri stjórn Íhaldsflokksins, forvera Sjálfstæðisflokksins, verið við völd í fjögur ár. Kosningarnar urðu sögulegar fyrir þær sakir að Alþýðuflokkurinn komst þá í fyrsta skipti til áhrifa við stjórn landsins. Íslandi hafði fram til þessa verið stjórnað af embættismönnum, kaupmönnum og efnuðum útgerðarmönnum og bændum, en nú komust fulltrúar verkalýðs og sjómanna í fyrsta skipti til áhrifa. Hlaut flokkurinn 19% atkvæða og átti þá orðið fimm þingmenn sem veittu minnihlutastjórn Framsóknarflokksins stuðning, enda kom samstarf við Íhaldsflokkinn ekki til greina þar sem hann hafði verið andsnúinn umbótamálum Alþýðuflokksins, t.d. hvíldartíma sjómanna, breytingum á fátækralöggjöf og rýmkun kosningaréttar.

Vettvangur sögunnar. Horft úr norðri yfir Hnífsdal (til hægri) og Ísafjörð (til vinstri). Myndin er fengin af bb.is.

En sagan um kosningasvindlið gerist fyrir vestan, á Ísafirði og Hnífsdal, og er kennd við síðarnefnda byggðalagið, því að þar hefst hún á heimsókn Sumarliða Hjálmarssonar, 25 ára gamals sjómanns, til Jónasar Þorvaldssonar kaupmanns. Sumarliði sagði sjálfur svo frá í viðtali mörgum árum síðar:

„Ég var óttalegur bjálfi þá í pólitík, vissi ekkert í minn haus. Hafði verið á spítala um veturinn, en var kominn um vorið út í Hnífsdal og borðaði hjá Jónasi Þorvaldssyni þar. Það var öndvegismaður, íhaldsmaður reyndar og kaupmaður, en hann og flokksbræður hans úr Sjálfstæðisflokknum tróðu mér inn á kjörskrá. … Mér var alveg sama þótt ég kysi. Íhaldsframbjóðandinn var Jón Auðunn Jónsson, en Finnur Jónsson var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn. … Það var róið í mér að kjósa, og endilega Jón Auðunn vegna þess að ég fékk að éta hjá Jónasi.“

Sumarliði Hjálmarsson 1975.

Sumarliði bjóst við að verða á sjó á kjördag 9. júlí og fór þess vegna þann 4. júlí við þriðja mann til hreppstjórans í Hnífsdal, Hálfdánar Hálfdánarsonar, til að kjósa utankjörfundar. Hjá Hálfdáni hreppstjóra fékk Sumarliði í hendurnar auðan hvítan seðil til að skrá atkvæði sitt á og umslag sem hann stakk atkvæðinu í. Að því loknu setti hreppstjórinn atkvæðin ofan í skúffu, læsti skúffunni og sagði að þarna yrðu atkvæðin geymd þangað til á kjördag. Þá gekk Sumarliði niður á bryggju en hitti mann á leiðinni sem varaði hann við því að skilja atkvæðið eftir hjá hreppstjóranum þar sem grunur léki á að hann falsaði atkvæði. Sumarliði fór því hið snarast aftur á fund hreppstjórans og krafðist þess að fá atkvæðið afhent svo hann gæti sjálfur komið þeim í hendur sýslumanns. Þegar heim var komið opnaði Sumarliði umslagið í vitna viðurvist og kom þá í ljós að á blaðið var skrifað annað nafn en Sumarliði hafði ritað hjá hreppstjóranum. Hið sama var uppi á teningnum þegar félagar Sumarliða, þeir Kristinn Pétursson og Halldór Kristjánsson, opnuðu sín atkvæði. Seinna sama dag kom svo í ljós fjórða atkvæðið sem hafði verið greitt Finni Jónssyni, frambjóðanda Alþýðuflokksins, en hafði í skúffu Hálfdánar hreppstjóra breyst í atkvæði greitt Jóni Auðunni Jónssyni, þingmanni og frambjóðanda Íhaldsflokksins.

Þremenningarnir tilkynntu þetta strax daginn eftir með bréfi til Odds Gíslasonar sýslumanns sem kom til fundar við þá og lét þá vinna eið að frásögn sinni. Oddur sýslumaður setti samdægurs rétt til að halda áfram rannsókn málsins og þangað mættu Hálfdán hreppstjóri og Eggert Halldórsson, skrifari hans, og fengu að heyra ákæruefnið, auk þess sem sýslumaður sýndi þeim umrædda kjörseðla ásamt rithandarsýnishornum sjómannanna sem bentu sterklega til að um ólíka handskrift væri að ræða. Þó að Hálfdán og Eggert hafi staðfastlega neitað sök þá lauk þessu réttarhaldi með því að Hálfdán var úrskurðaður í gæsluvarðhald og gert að afhenda þau atkvæði sem hann hafði enn í vörslu sinni og öll ónotuð kjörgögn. Fimm dögum síðar var Eggert einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald á þeim forsendum að hann hefði aðstoðað Hálfdán hreppstjóra við atkvæðagreiðsluna, auk þess sem handskrift á kjörseðli þótti líkjast rithönd Eggerts. Þeim var báðum sleppt úr varðhaldi 22. júlí.

Jónas skipar rannsóknardómara

Jónas frá Hriflu tók sæti í ríkisstjórn Framsóknarflokksins að loknum kosningunum í júlí 1927 og í kjölfarið hófst mikið átakaskeið í íslenskum stjórnmálum þar sem hann beitti ráðherravaldinu óspart til breytinga, þar á meðal í embættismannakerfinu. Pólitískir andstæðingar hans álitu það oft ofsóknir, en stuðningsmenn töldu oft um að ræða löngu tímabærar hreinsanir í stöðnuðu og spilltu kerfi. Jónas hafði nýverið komið sér fyrir í dómsmálaráðuneytinu þegar hann skipaði Halldór Kr. Júlíusson, sýslumann í Strandasýslu, rannsóknardómara í málinu. Ekki verður séð að Halldór hafi haft pólitískar tengingar, að minnsta kosti hélt Jónas því fram í þingræðu að Íhaldsflokkurinn hefði boðið Halldóri að fara fram fyrir flokkinn í Strandasýslu, en hann afþakkað, og í minningargrein í Morgunblaðinu sagði að Jónas hefði reynt að fá Halldór til að ganga í raðir Framsóknarflokksins, að sama skapi árangurslaust þar sem Halldór kaus pólitískt hlutleysi vegna starfa sinna. Hann virðist hafa tekið rannsóknin föstum tökum eins og við mátti búast af manni sem var svona lýst í grein um hann níræðan: „Allar hreyfingar formfastar og fyrirmannslegar svo af ber. Halldór er svo sterkur persónuleiki, að hann þurfti ekki að klæðast sýslumannsúniforminu, til þess að allir sæu, að þar fór sýslumaður Strandamanna“.

Halldór Kr. Júlíusson.

Dómsmálaráðherra veitti Halldóri vald til að þinga í málinu hvar sem er á landinu, hefta frelsi manna og kalla þá til vitnisburðar og yfirheyrslu. Það er til marks um formfestu Halldórs að hann sótti Sumarliða Hjálmarsson, þann er hratt málinu af stað, niður í fjöru við Hnífsdal þar sem hann var að koma að landi eftir sjóferð. Sumarliði sagði sjálfur svo frá að hann hafi stokkið í land til að fara á kamarinn eftir langan dag á sjó, en Halldór þá kallað til hans að hann mætti ekki fara úr fjöruni nema í fylgd lögreglu. Hafi þetta því verið fyrsta og eina skiptið sem Sumarliði gekk örna sinna undir opinberu eftirliti. Í október var ástandið orðið þannig fyrir vestan að þegar hneppa átti þá Hálfdán og Eggert aftur í varðhald þá gripu þeir og fleiri Hnífsdælingar til varna og neituðu að hlýða dómaranum. Hann þurfti því að safna liði áður en hann gerði aðra og árangursríkari tilraun til að koma mönnunum í varðhald á Ísafirði. Rannsóknin teygði sig víðar um Vestfirði, m.a. til Bolungarvíkur, og þar var einnig gripið til andspyrna gegn rannsóknardómaranum þegar hann gerði sig líklegan til að hneppa menn í varðhald. Var honum mætt af miklu liði og fylgt til báts og honum siglt aftur til Ísafjarðar. Halldór yfirheyrði 105 manns og fór ellefu ferðir í Hnífsdal, tvær í Bolungarvík, auk þess sem hann lagði leið sína í Jökulfirði, Ögur, Æðey og til Snæfjallastrandar.

Blöðin voru rammpólitísk á þessum tíma og það endurspeglaðist í allri umfjöllun þeirra um Hnífsdalsmálið. Þannig endurspeglaði Morgunblaðið, blað Íhaldsmanna, afstöðu þeirra sem vildu varpa sökinni á jafnaðarmenn: „Sterkur grunur leikur á því hjer, að kommúnistar á Ísafirði sjeu valdir að atkvæðafölsuninni beint eða óbeint, og hafi þeir komið þessu í kring í ofsóknarskyni við hreppstjóra, eða sem kosningabrellu“. Greinilegt er á umfjöllun Tímans, blaðs Framsóknarflokksins og Jónasar dómsmálaráðherra, að það hafði mikil og greið samskipti við Halldór rannsóknardómara. Tíminn hóf margra blaðsíðna umfjöllun sína í blaðinu 17. desember 1927 á eindreginni yfirlýsingu:

„Ekkert mál hefir um langt skeið vakið þvílíkan óhug meðal landsmanna sem Hnífsdalsmálið. … Það mun teljast vera sannað, að í kosningunum á síðastliðnu sumri hafi verið, með atkvæðafölsun, ráðist á kosningafrelsi manna í þremur af kjördæmum landsins … Glæpur þessi er einstæður í sögu landsins, svo að uppvíst hafi orðið. Hann er drýgður gegn lýðræðisskipun þeirri, sem stjórnarfar okkar hvílir á og snertir þess vegna almenning á víðtækan og alvarlegan hátt. Atkvæðafölsun miðar til þess að raska eðlilegri niðurstöðu í úrslitum kosninga og getur því á hverjum tíma leitt til þess að lagasetning Alþingis og stjórnarfarið í landinu hvíli á fölskum grunni.“

Rithandasýni úr rannsókn málsins sem Tíminn birti 17. desember 1927.

Átök á Alþingi

Atkvæðafölsunarmálið var til umfjöllunar þegar Alþingi kom saman í ársbyrjun 1928. Fulltrúi meirihlutans í kjörbréfanefnd lagði til að beðið yrði með að samþykkja kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar, frambjóðanda Íhaldsflokksins, enda stæði yfir mikil rannsókn á kosningunni sem hefði leitt í ljós margar og miklar misfellur, svo miklar að fordæmalaust yrði að telja. Jón Þorláksson, formaður Íhaldsflokksins, sagði málið í eðlilegum farvegi hjá dómstólum og að Jón hefði unnið með svo miklum mun, 249 atkvæðum, að utankjörfundaratkvæði gætu ekki breytt úrslitum kosninganna. Eftir fimm daga stapp töldu fjórir í kjörbréfanefndinni að taka ætti kosninguna gilda en Héðinn Valdimarsson úr Alþýðuflokki var einn á móti. Meirihluti nefndarinnar skilaði ekki sameiginlegu áliti þó að hann hafi stutt sömu niðurstöðu. Magnús Guðmundsson, þingmaður Íhaldsflokksins, og Sigurður Eggerz, þingmaður Frjálslynda flokksins og síðar Sjálfstæðisflokksins, töldu ekkert mæla gegn samþykkt kjörbréfsins en Gunnar Sigurðsson og Sveinn Ólafsson, þingmenn Framsóknarflokksins, sögðu í sínu áliti að eftir að hafa kynnt sér skjöl og lögregluréttarbók setudómara þá gætu þeir ekki séð að Jón Auðunn hafi átt nokkurn grunsamlegan þátt í undirbúningi eða framkvæmd kosninganna. Því bæri að samþykkja kosninguna. Hins vegar hafi varfærni í málinu verið sjálfsögð, þar sem tortryggilegar misfellur hefðu reynst á kosningu sama þingmanns árið 1919, þegar Jón Auðunn, eða stuðningsmenn hans, voru sakaður um að hafa borið fé á kjósendur.

Í minnihlutaáliti Héðins Valdimarssonar sagði að þegar sannað væri glæpsamlegt athæfi til framdráttar þingmannsefnis bæri að ógilda kosninguna án tillits til atkvæðamunar, og ætti það sér fyrirmynd í Englandi. Þá vék Héðinn að kosningasögu Jóns Auðuns og hóf mál sitt á kæru vegna kosninganna 1919: „Þá kom fram kæra yfir kosningu sama frambjóðandans, Jóns A. Jónssonar. Málið var lagt fyrir kjörbréfanefnd, en álit hennar kemur fyrst fram 1921 og er á þá leið, að gallar muni vera á kosningunni og meðal annars hafi sannast, að mútur hafi átt sjer stað. Bjarni nokkur Bjarnason keyrari hafi orðið uppvís að því að bera fje á menn til þess að kjósa Jón Auðun Jónsson.“ Kjörbréfanefnd Alþingis hafi þá lagt til að málið yrði rannsakað frekar en ekkert hafði orðið af þeirri rannsókn, hún sofnaði í höndum ráðherra Íhaldsflokksins, eins og Héðinn orðaði það. Því næst greindi Héðinn frá kæru vegna kosninga á Ísafirði 1923, en þar var talið að miklar misfellur hefðu orðið á kosningunum vegna „bardagaaðferða“ Íhaldsflokksins. Var frambjóðandi flokksins, Sigurjón Jónsson, þá kosinn með eins atkvæðis mun. Að sama skapi var álitið, að sögn Héðins, að mjög miklar misfellur hefðu átt sér stað í kosningu í Norður-Ísafjarðarsýslu það ár við kjör Jóns Auðuns, og víðar þar sem heimakjör var mest stundað. „Nú verða enn uppvís svik og glæpir í sambandi við kosningu þessa sama frambjóðenda,“ sagði Héðinn, „og það virðist sem meirihlutinn telji ekkert einkennilegt né athugavert við það, að slíkt skuli koma fyrir ár eftir ár á sama stað við kosningu sama manns og með stuðningi sama flokks“. Jónas dómsmálaráðherra tók einnig til máls í umræðunum og hélt langar ræður þar sem hann tók undir með þingmönnum Alþýðuflokksins: „Jeg geri ekki ráð fyrir, að í Norðurísafjarðarsýslu sjeu yfirleitt verri menn en annarsstaðar. Jeg geri ráð fyrir, að þar sje um tiltölulega fáa menn að ræða, sem að svikunum standa. En þessi fámenni hópur hefir spillandi áhrif á aðra og getur sýkt út frá sjer og orðið þess valdandi, að víðar verði reynt að vinna leik með svikum. Þess vegna verður að ógilda kosninguna.“

Þann 1. febrúar gekk þingið til atkvæða og 22 greiddu því atkvæði að kjörbréf Jóns Auðuns yrði samþykkt, átta framsóknarmenn sátu hjá en ellefu voru því andvígir, Alþýðuflokksmennirnir fimm og sex framsóknarmenn, þar á meðal Jónas dómsmálaráðherra. Jón Auðunn Jónsson var því rétt kjörinn alþingismaður og átti eftir að sitja á þingi til 1937, síðast fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er síðan önnur og forvitnileg saga að sama ár og þingferli Jóns Auðuns lauk játaði hann á sig landhelgisbrot, þar er hann hafði sent áhöfn togara dulmálsskeyti með upplýsingum um staðsetningu varðskipa, en togaraveiði á grunnslóð var mjög andstæð hagsmunum smábátaútvegs fyrir vestan og því ekki til vinsælda fallið meðal kjósenda. Dóttir Jóns, Auður Auðuns, átti síðar eftir að marka spor í íslenska stjórnmálasögu þegar hún varð fyrst kvenna borgarstjóri í Reykjavík og ráðherra.

Jónas Jónsson dómsmálaráðherra og Magnús Kristjánsson fjármálaráðherra við Stjórnarráðshúsið 1927. Þeir voru báðir þingmenn Framsóknarflokksins en kusu á ólíkan hátt 1. febrúar 1928 þegar Alþingi afgreiddi kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar.

Niðurstaða dómstóla

Rannsókn Hnífsdalsmálsins lauk í árslok 1927 þegar Halldór Kr. Júlíusson rannsóknardómari kvað sjálfur upp dóm í málinu 8. mars 1929. Hálfdán var dæmdur í átta mánaða betrunarhúsavinnu og Eggert í sex mánaða fangelsi. Morgunblaðið birti kafla úr málsvörn Lárusar Jóhannessonar, verjanda Hálfdánar. Hann sagði málsmeðferðina fordæmalausa á 20. öld og öll meðferð rannsóknardómarans benti til að hann hafi haft fyrirfram ákveðna sannfæringu um sekt hinna kærðu. Lárus virðist hafa teflt á tæpasta vað í málsvörninni og lítið fjallað um málsatvik en nær eingöngu um hlutdrægni Halldórs. Fyrir það fékk hann sekt sem var síðan staðfest í Hæstarétti þegar hann kvað upp sinn dóm 15. desember 1930, en Hæstiréttur taldi einnig ýmislegt aðfinnsluvert við störf rannsóknardómarans, þannig hafi hann t.d. ekki flutt frumskjöl málsins til Reykjavíkur eins og verjendur óskuðu eftir, framkoma hans gegn sumum vitnum hafi naumast verið sæmandi stöðu rannsóknardómara og hann hafi dylgjað um glæpsamlegt afthæfi nokkurra nafngreindra manna sem ekki hafa verið ákærðir í málinu. En þetta þótti Hæstarétti samt ekki næg ástæða til að sekta Halldór Kr. Júlíusson rannsóknardómara.

Sekt þeirra Hálfdánar og Eggerts var staðfest í Hæstarétti en dómar þeirra mildaðir. Taldi rétturinn „sannað með prófunum, að skift hafi verið um seðlana eða þeir falsaðir meðan þeir voru í vörslum Hálfdánar, að engum öðrum en þeim tveimur er til að dreifa um fölsun þeirra, að framburður Hálfdánar er í öðrum atriðum málsins grunsamur, sérstaklega um það hverjir aðrir kjósendur hafi skilið eftir kjörgögn sín í vörslum hans, og loks, að rithöndin á einum seðlanna svipar til rithandar Hálfdánar, og rithöndin á hinum þremur seðlunum hefir svip af rithönd Eggerts, þá þykir mega telja það sannað, að Hálfdán hafi falsað atkvæðaseðil Sigurðar Guðmundar Sigurðssonar og Eggert hina þrjá atkvæðaseðlana og þá jafnframt, að Hálfdán hafi verið í vitorði með Eggerti um fölsunina“.

Sögulegar ályktanir

Líklega er óhætt að álykta að brögðum hafi verið beitt í kosningum á Ísafirði og sveitunum þar í kring, bæði 1919 og 1923. Eins var kærumálum vegna þessa sannarlega stungið undir stól af þáverandi ráðherrum íhaldsmanna. Aftur á móti held ég að heimildirnar leyfi ekki að dregnar séu of víðtækar ályktanir um áhrif kosningasvindls á Ísafirði og í Hnífsdal. Dómurinn í Hnífsdalsmálinu tekur til fjögurra atkvæðaseðla þar sem munurinn á frambjóðendum reyndist 249 atkvæði. Líklega skýrist framganga Hálfdánar og aðstoðarmanns hans af kappi þeirra frekar en pólitísku samsæri, kannski til að öðlast aðdáun frambjóðanda Íhaldsflokksins eða þá til að hefna fyrir verkföll sem stéttarfélögin höfðu efnt til fyrr á kosningaárinu 1927, en Finnur Jónsson, frambjóðandi Alþýðuflokksins, var forystumaður í verkalýðshreyfingunni á svæðinu og Hálfdán var útgerðarmaður. Margt bendir til þess að atkvæðakaup og svindl hafi verið stunduð í kosningunum 1919 og 1923, en líklega er ofsagt hjá Jónasi frá Hriflu og Tímanum að eins atkvæðis kosningasigur Íhaldsflokksins (þá nefndur Borgaraflokkur) á Ísafirði 1923 hafi tryggt eins manns þingmeirihluta Íhaldsflokksins það kjörtímabil. Flokkaskipanin var það laus í reipunum á þessum tíma að það er vart hægt að fullyrða að kjör Haraldar Guðmundssonar, frambjóðanda Alþýðuflokksins á Ísafirði, hefði komið í veg fyrir að Íhaldsflokknum tækist að mynda stjórn kjörtímabilið 1923–1927 og hún „hangið á þessu eina atkvæði“ eins og Jónas frá Hriflu orðaði það.

Og þá um þátt Jónasar frá Hriflu. Það má segja margt um Jónas, enda maðurinn svo afkastamikill, áhrifaríkur og líklega frekur á sinni tíð að það er hægt að hafa miklu fleiri en eina skoðun á honum, en það verður ekki af honum tekið að hann kom inn á vettvang stjórnmálanna sem umbótamaður. Um það er til margvíslegur vitnisburður, til að mynda þessi orð hans árið 1911:

„Yfirstéttin hefur farið með óskorað vald fyrir hönd verkamanna, en árangurinn er óglæsilegur: Almenn fátækt, húsakynni, fatnaður og fæði af lélegasta tagi. Stundum heil fjölskylda í einu kjallaraherbergi, og ekkert eftirlit af hálfu þjóðfélagsins. Bækur litlar sem engar. Skólar engir né uppfræðsla eftir að barnaskóla sleppir. Eftirlit með skipum og bátum sama sem ekki neitt, enda slys og drukknanir á sjó tíðari en með nokkurri annarri þjóð. Lítið sem ekkert gert til að bæta úr neyð forsjárlausra sjómannabarna. Á togurunum verri vinna en nokkurn tíma hefur þekkst áður hér á landi … og til að kórana allt eru skattarnir til almenningsþarfa lagðir langþyngst á þessa niðurbældu stétt“.

Þegar Jónas varð ráðherra 1927 þá voru það m.a. þessar hugmyndir sem drifu hann áfram. Líklega hefur það haft áhrif á þá embættismenn sem Jónas valdi til starfa, þar á meðal Halldór Kr. Júlíusson, sýslumann og rannsóknardómara. Ákafi hans í málinu og umfang rannsóknarinnar varð þess vegna líklega meiri en tilefni gaf til, en aftur á móti má ætla að málið hefði aldrei verið rannsakað með sömu nákvæmni, t.d. með rithandaprófi Scotland Yard, ef ekki hefði verið fyrir eindreginn vilja Jónasar til að laga kerfi sem hann áleit staðnað og spillt.

Hvað getum við lært?

Haraldur Guðmundsson, þingmaður Alþýðuflokks, tapaði kosningunum 1923 með einu atkvæði. Hann lagði fram breytingar á kosningalögum árið 1928 sem koma áttu í veg fyrir kosningasvindl.

Það er líklega erfitt að draga lærdóm af atkvæðafölsumarmálinu í Hnífsdal sem gagnast okkur í umræðunni um nýleg afglöp formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Atkvæðafölsunin fór fram á svo sérstöku tímabili sögunni þar sem stéttaátök voru allsráðandi og pólitísk barátta var miklu mun harðskeyttari en nú, auk þess sem öll stjórnsýsla var frumstæðari. Nýtt Alþingi gæti þó tekið viðbrögð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og þingmanna Alþýðuflokksin sér til fyrirmyndar, en Haraldur Guðmundsson, þingmaður Alþýðuflokksins, lagði fram frumvarp á Alþingi, strax við upphaf þings 1928, um breytingar á lögum um utankjörfundaatkvæðagreiðslur til að koma í veg fyrir atkvæðafölsun. Hann hóf framsögu sína á að lýsa ágöllum kerfisins: „Jeg þykist vita, að hv. deild muni vera á einu máli um það, að þörf sje á skýrari ákvæðum um kosningar utan kjörstaða heldur en nú eru í gildi. Síðustu alþingiskosningar eru glögg sönnun þess, að þau eru ekki svo trygg sem skyldi. Það er enginn vafi á því, að misfellur þær ýmsar, er áttu sjer stað á atkvæðagreiðslum utan kjörstaða við síðustu kosningar, eiga að talsvert miklu leyti rót sína að rekja til þess, að ákvæði núgildandi laga í þessu efni eru hvorki fullnægjandi nje nægilega skýr og ákveðin. … Eins og nú hagar til er ákaflega auðvelt að falsa atkvæði, sem greidd eru utan kjörstaða.” Breytingarnar sem Haraldur lagði til vörðuðu m.a. gerð kjörgagna, þ.á.m. að kjörgögn yrðu tölusett þannig að ekki væri hægt að skilja í sundur kjörseðil og fylgiblöð, auk þess sem hægt yrði að stemma af fjölda útsendra kjörgagna og greiddra atkvæða. Þá voru lagðar til strangari reglur um hverjir gætu átt sæti í kjörstjórn utan kjörstaða, hvar slík kosninga gæti farið fram og um innsigli kjörkassa. Frumvarpið fékk greiða leið í gegnum Alþingi og var samþykkt í efri deild 10. apríl með tólf samhljóða atkvæðum og tveimur dögum seinna í neðri deild með 22 samhljóða atkvæðum. Þannig gekk þingið 1928 vasklega í það verk að laga galla kosningakerfisins. Þegar þetta er ritað á enn eftir að koma í ljós hver verða viðbrögð nýkjörins Alþingis við annmörkunum á kerfinu sem komu í ljós við talningu í Norðvesturkjördæmi 26. september síðastliðinn.

(Hér má hlýða á viðtal sem ég tók við Sigurð Pétursson sagnfræðing um þetta mál, en hann hefur skrifað mikið um vestfirska verkalýðssögu og þar á meðal um Hnífsdalsmálið).

--

--

Guðmundur Hörður

Hér skrifa ég pistla um sagnfræðileg efni, en almenna bloggpistla birti ég á gudmundurhordur.blogspot.com