Ingibjörg og Jónas

Guðmundur Hörður
14 min readNov 23, 2022

Sagnfræðingafélagið efndi nýverið til málþings um Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu konuna sem var kosin á Alþingi. Kristín Ástgeirsdóttir flutti þar erindi sem hún nefndi Málsvari kvenna eða „besta sverð íhaldsins“? Erindið var vel flutt og ályktanir um mikilvægan þátt Ingibjargar í stjórnmálasögunni skýrar og vel rökstuddar. Það eru samt nokkur atriði sem rétt er að bregðast við í tengslum við umfjöllun Kristínar um Jónas Jónsson frá Hriflu, samskipti hans við Ingibjörgu og afstöðu hans til kvenréttinda og menntunar kvenna.

Gömul, bitur og leiðinleg

Í erindinu greindi Kristín frá orbragði karlkyns þingmanna í garð Ingibjargar og mátti af orðum hennar ætla að Jónas hefði gengið þeirra lengst í dónaskapnum. Að minnsta kosti varð manni nokkuð brugðið þegar vísað var í þingræðu hans 15. apríl 1930 þar sem hann lét þessi orð falla um Ingibjörgu og Jón Þorláksson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins:

Mér finnst háttvirtur fyrirspyrjandi og háttvirtur þriðji landskjörinn ekkert þurfa að vera svo afbrýðisöm, þó sumum þyki leiðinlegt að hlusta á þau og láti það í ljós á kurteisan hátt. Það kemur fram hjá þeim samskonar ergelsi og öfund eins og kemur fram hjá konum, sem eru farnar að eldast, en hafa engin afkvæmi eignast, gagnvart heiðarlegum mæðrum.

Á þessum tíma voru þingmenn talsvert orðljótari í garð hvers annars en nú, en að tala svona til Ingibjargar, sem var þarna komin á sjötugsaldur og barnlaus, er svo yfirgengilega dónalegt að það tók að læðast að mér efi um Jónas, mann sem ég hef talið í hópi allra framsýnustu umbótamanna. Gat verið að þessi listelski, bókhneigði og víðsýni framfara- og jafnaðarmaður hafi verið slíkur dóni í samskiptum við konur? Höfðu heimildir um Jónas kannski gefið mér skakka mynd af honum? Var þetta virkilega sami Jónas og Halldór Laxness sagði þetta sama ár að væri þúbróðir annars hvers Íslendings og að hús hans stæði „seint og snemma opið gestum og gangandi, mönnum af öllum stéttum, öllum landshornum, allra hugsanlegra erinda.“ Gat þetta verið sami maður hvers hjónaband var lýst með þessum hætti af barnabörnum: „Hún réð öllu innanstokks og mér finnst að hún hafi verið sterkari aðilinn í hjónabandinu. Afi elskaði hana og virti, eins og dæturnar hafa sagt: ,,Það sem mamma vildi, það var líka hans vilji.““ Gat verið að í sama manninum byggi persóna sem kæmi svona fram við fyrstu þingkonuna en væri jafnan lýst sem gæðablóði í samskiptum við aðrar konur, t.d. þar sem hann kom sem gestur á afskekkt sveitaheimili:

Móðir mín var ekki ýkja framhleypin fremur en aðrar konur á hennar tíð — eftir aldalanga kúgun. Þegar hún hafði borið fram veitingar og lagt þær á borð fyrir Jónas, föður minn og fleiri gesti, stóð hún sjálf við dyrnar eins og þjónustustúlka með bakka í höndum. Þetta líkaði Jónasi ekki. Hann spratt á fætur, gekk til hennar og sagði: ,,Komdu hingað, Kristín mín. Drekktu með okkur og taktu þátt í samræðum okkar.

Guðrún og Jónas með dætrum sínum, Auði og Gerði. Norsk kona situr fremst.

Mér þótti þetta svo einkennilegt að ég ákvað að leita í frumheimildina, þingtíðindi frá 1930, sem hefur að geyma samskipti Ingibjargar og Jónasar þriðjudaginn 15. apríl, á fæðingardegi Vigdísar Finnbogadóttur forseta. Ingibjörg hóf umræðuna með fyrirspurn um Landspítalann, m.a. hvort hann yrði tilbúinn á haustdögum 1930 eins og gert væri ráð fyrir í samningi ríkis og Landsspítalasjóðs Íslands. Jónas svaraði því nokkuð skilmerkilega en virðist ekki hafa getað stillt sig um að spyrja Ingibjörgu á móti út í Landsspítalasjóðinn, söfnunarsjóð reykvískra kvenfélaga, sem stóð að þriðjungi af kostnaði spítalans. Spurði hann hversu mikið fé væri í sjóðnum og hversu miklu hefði verið eytt, en Ingibjörg var gjörkunnug sjóðnum þar sem hún sat í stjórn hans og var einn helsti hvatamaður hans. Jón Baldvinsson, formaður Alþýðuflokksins, tók undir þessa fyrirspurn Jónasar síðar í umræðunni og sagði að konur í Reykjavík hefðu gerst full ráðamiklar yfir fé spítalasjóðsins og að landsbyggðarkonur, sem einnig hefðu staðið að fjársöfnuninni, ætluðust til að allur sjóðurinn gengi til spítalans svo flýta mætti byggingu hans. En þarna virðist hanskanum hafa verið kastað og í næstu ræðu greip Ingibjörg til áróðursbragðs sem Íhaldsmönnum var tamt að beita þegar Jónas var annars vegar og sagði spurningar hans virðast koma frá óvita eða brjáluðum manni.“ Greindi hún engu að síður frá þeim upphæðum sem enn væru í sjóðnum og taldi sig þar með hafa svarað þessari „ómaklegu og ósæmilegu aðdróttun“ Jónasar sem hún taldi æruleysissakir. Næstur tók til máls Jón Þorláksson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem sagði tilburði Jónasar til vitnis um hans „veilu skapgerð.“ Ingibjörg kom upp í ræðustól í þriðja skiptið í þessari umræðu og hjó enn í sama knérunn þegar hún sagði að Jónas gæti hvorki talist ábyrgur orða sinna né gerða, auk þess sem hann hefði augljóslega ekki heilbrigða réttarmeðvitund, „hvað svo sem segja má um andlegt ástand hæstvirts ráðherra.“

Þegar þarna var komið höfðu þau Ingibjörg og Jón þrisvar sinnum vikið að geðsmunum Jónasar og brast þá á með ræðunni þar sem hann greip til þeirra ljótu orða sem að ofan er getið. Án þess að ég ætli mér að réttlæta orðbragðið þá tel ég engu að síður að þau þurfi að setja í sögulegt samhengi. Þannig var mál með vexti að þegar þessi umræða fer fram þá eru rétt tæpir tveir mánuðir liðnir frá Stóru bombunni, hápunkti áralangrar áróðursherferðar Sjálfstæðis- og Íhaldsflokksins um geðheilsu Jónasar, þar sem vegið var svo nærri persónu hans að teljast má einstakt í íslenskri stjórnmálasögu. Þá gekk Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, á fund forsætisráðherra og forseta Alþingis og sagði að leysa yrði Jónas frá embætti vegna geðveiki. Hann heimsótti síðan Jónas sjálfan og Guðrúnu, eiginkonu hans, og sagði henni hið sama í einrúmi. Haft er eftir barnabarni Jónasar að undir það síðasta hafi hann oft vikið að þessu máli og jafnan hafi hann komið að sama atriðinu: „Hvernig geðlæknirinn hefði komið fram við ömmu þegar hann greip í handlegg hennar í rökkrinu og sagði: „Vitið þér að maðurinn yðar er geðveikur?““ Annar vitnisburður um áhrif þessara atburða á Jónas er frásögn Þóris Baldvinssonar, frænda Guðrúnar, sem heimsótti þau skömmu eftir þessa atburði: „En burtséð frá veikindunum (hálsbólgu) þóttist ég verða var við, að Jónas væri ekki í eins léttu skapi og honum var tamt, og að nýliðnir atburðir hvíldu þungt á honum sem vonlegt var.

Óttar Guðmundsson geðlæknir fjallaði um þetta mál í Læknablaðinu árið 2007 og sagði með ólíkindum að Helgi Tómasson skyldi láta hafa sig út í þetta mál:

Svo vanhugsað og einkennilegt sem það var. Þetta var ekkert annað en pólitísk aðför að dómsmálaráðherra. Eflaust hefur Helgi trúað því að Jónas væri ekki heill á geði en það er mjög hæpið lýsa því yfir opinberlega að maður í slíkri valdastöðu sé geðveikur án þess að hafa rætt við hann eins og geðlæknir gerir við skjólstæðing og kynnt sér ástand hans. Yfirlýsing Helga er byggð á sögusögnum og slúðri sem gekk manna á meðal um Jónas.

Jónasa var sannarlega ráðríkur maður og átti storm að skapsmunun, á því fengu jafnt andstæðingar hans og flokksbræður að kenna þegar þeir voru annarrar skoðunar en Jónas í þeim málum sem hann bar fyrir brjósti. Sigurvin Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lýsti Jónasi svo:

Hann var eldheitur hugsjónarmaður, en honum nægði ekki hugsjónirnar einar; hann vildi hrinda þeim í framkvæmd líka — og helst strax. Hann þoldi illa andspyrnu, sérstaklega úr eigin flokki, og stillti ekki skap sitt sem skyldi. … Hann var formaður þingflokksins. Og mér þótti hann afar prúður og elskulegur og aðlaðandi á þessum fundum — ef allt lék í lyndi. Væri hins vegar einhver á öndverðu meiði við hann og lýsti skoðun sinni tæpitungulaust — þá reiddist Jónas og gætti ekki alltaf tungu sinnar.“

Það er óhætt að álykta að þessi reiði hafi náð tökum á Jónasi í þingsal 15. apríl 1930 þegar þau Jón Þorláksson og Ingibjörg gerðu geðheilsu hans að umræðuefni, fáum vikum eftir stóru atlöguna að æru og einkalífi Jónasar. Þó ekkert réttlæti þau orð sem hann lét falla þá undrast maður þau síður þegar þau eru sett í samhengi við það sem á undan hafði gengið. Það er síðan til marks um sanngirni Jónasar og heilbrigða dómgreind að hann ritaði svo við andlát Ingibjargar árið 1941: „Hún var virðuleg í framgöngu, og setti þann svip á skólann. … Foreldrar höfðu mikið traust á kvennaskólanum undir stjórn þessarar forstöðukonu. Þeir vissu að, að hún lét sér annt um nemendur sína.“ Og um framgöngu hennar á stjórnmálasviðinu sagði hann m.a.: „Kom fram í þessum og fleiri tiltektum fram skörungsskapur, sem oft gætir meira í lunderni kvenna en karla.“

Ágreiningur um kvenna- og húsmæðraskóla

Fram kom í máli Kristínar að Ingibjörgu og Jónas hefði greint á um áherslur í menntamálum kvenna og mátti af fyrirlestrinum og umræðum í kjölfar hans ætla að þar hefði Jónas lagt áherslu á stofnun húsmæðraskóla til að koma í veg fyrir þá þróun að konur gegndu fjölbreyttari störfum í samfélaginu en húsmæðrastarfinu. Sagði Kristín að þetta hefðu verið deilur um hlutverk kvenna ⎯ það hvort aukin menntun og alls kyns störf eða móður- og húsmóðuhlutverkið væru hin sanna köllun kvenna.

Fjölmargt kemur fram um afstöðu Jónasar til menntunar kvenna í umræðum á Alþingi um stjórnarfrumvarp Íhaldsflokksins 1925 (sem sameinaðist öðrum hægri flokkum undir merki Sjálfstæðisflokks árið 1929) þar sem lagt var til að Kvennaskólinn í Reykjavík yrði ríkisskóli en hann hafði verið einkaskóli. Ingibjörg var eindrægur fylgismaður frumvarpsins og tók virkan þátt í umræðum um það í þingsal þrátt fyrir að vera sjálf skólastjóri Kvennaskólans. Jónas mótmælti sannarlega tillögunni, en á rekstrarlegum og kennslufræðilegum forsendum. Hann sagðist efast um að skólarekstur batnaði við það að færast á reikning ríkisins og sagði rekstur Kvennaskólans aðdáunarverðan:

Fyrir, hversu vel hann hefir komist af með ekki meira fé en hann hefir haft frá því opinbera, unnið gott starf, og getað búið í jafngóðu húsi og sá skóli hefir. Ég hygg, að þetta stafi af þvi, að skólinn er laus við hið þunglamalega rekstrarfyrirkomulag rikisstofnananna.“

Þó taldi hann eitt mæla með því að Kvennaskólinn yrði ríkisskóli og það var launahækkun sem hann taldi að Ingibjörg skólastjóri ætti skilið að fá, en henni mætti ná fram með hækkun ríkisstyrks til skólans. Þá andmælti hann tillögunni um ríkisvæðingu Kvennaskólans á þeim forsendum einnig að hann væri gagnfræðiskóli með námsframboð sem hentaði báðum kynjum. Þar sem allir almennir skólar höfðu þá verið opnaðir konum þá taldi Jónas ekki ástæðu til að ríkið héldi uppi gagnfræðaskóla sem væri einvörðungu kvennaskóli. Sagði hann skólann hafa verið nauðsynlegan þegar konur voru útilokaðar frá námi í skólum sem karlar áttu einir aðgang að, en þegar þarna var komið sögu sóttu konur nám við Menntaskólann í Reykjavík, Flensborgarskólann, gagnfræðiskólann á Akureyri og víðar. Ingibjörg sagði í svari við ræðu Jónasar að Kvennaskólinn væri ekki gagnfræðaskóli, en þar væri kennd blanda bóklegs náms, hússtjórnar og hannyrða. Þá sagði hún stúlkur verða fyrir „sérstökum uppeldisáhrifum“ af því að umgangast konur og að karlar gætu „aldrei sett sig eins vel inn í séreðli ungra stúlkna.“ Því taldi hún sérstakan gagnfræðaskóla fyrir konur heppilegri kost en skólar fyrir bæði kyn:

Samskólahugmyndin fékk um skeið mikinn byr, en nú eru menn að hverfa frá þeirri skoðun, og álíta, að heppilegra sé, að þær stúlkur, sem ekki leggja stund á sérnám, sæki kvennaskóla, þar sem kennt sé ýmislegt bæði til munns og handa, auk húsmæðrafræðslu. … Mikilsmetinn fundur, sem haldinn var um þessi mál í Kaupmannahöfn í vetur, komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að hverfa frá því að mestu leyti, að láta stúlkur og pilta hafa sömu fræðslu eftir 12–14 ára aldur, nema þær stúlkur, sem ætla að ganga menntaveginn, til þess að ná embættisprófi.“

Þá bætti hún við að hún vonaði að hússtjórnarkennsla ætti eftir að aukast og að einn slíkur skóli kæmi í hvern landsfjórðung. En Jónas féllst ekki á þörfina fyrir sérstakan ríkisrekinn kvennaskóla, ef hann væri ekki beinlínis húsmæðraskóli. Og hann var ósammála Ingibjörgu um að aðskilnað kynjanna í skólum, sagði slíkt tískufyrirbrigði í fræðslumálum og auk þess þvert á það sem konur hefðu barist fyrir:

Það var þessi pólitiska barátta kvenna, sem opnaði alla atvinnuvegi fyrir konum jafnt og karlmönnum, og undan hinum þungu hamarshöggum kvenréttindaforkólfanna var það, sem menntastofnanirnar urðu einnig að láta, og hafa síðan staðið opnar fyrir konum jafnt sem körlum. Nú er það háttvirtur 6. landskjörinn (IHB), ásamt hæstvirtum forsætisráðherra, sem vill loka aftur þessum opnu dyrum menntastofnananna, sem hafa staðið kvenþjóðinni opnar um hríð.“

Við lestur þessarar umræðu vottar ekki fyrir karlrembu hjá Jónasi, en aftur á móti ber á henni í málflutningi sumra íhaldsmanna, flokksbræðra Ingibjargar, t.d.:

Það er að vísu fullvíst, að konur geta náð eins góðri menntun og karlar. Þó mun skerpan yfirleitt vera meiri hjá karlmönnunum, en skyldurækni og ástundunarsemi meiri hjá kvenfólkinu. Og það getur einmitt leitt til þess, og hefir án efa gert það, að ungar stúlkur ofreyni sig við námið í samkeppninni við piltana í samskólunum.“

Jónas hafði sannarlega áhuga á að fjölga húsmæðraskólum, en sá áhugi verður ekki skýrður með karlrembu eða tilraunum hans til að halda aftur af þátttöku kvenna í samfélaginu, heldur praktískum hugmyndum. Hann sagði það gott að konur lærðu stærðfræði, tungumál og slíkar greinar, en þær hefðu enn sem komið var meira not fyrir heilsufræði, matargerð, garðrækt og þess háttar. Fyrir þessu nefndi hann félagslegar og efnahagslegar ástæður:

Ég hygg, að þau heimili séu eigi mörg á landinu, nema ef undanskilin eru stærstu efnaheimili — sem þó eru eigi mörg — er húsfreyja getur sinnt öðru en venjulegum heimilisstörfum. … Ég skil ekki, hversvegna háttvirtur 6. landskjörinn (IHB) vill bægja konum frá sérnámi því, sem þeim má að mestu gagni verða í lifsbaráttunni. Það er og næsta undarlegt, að eftir að konur hafa fengið jafnrétti við karla i þjóðfélaginu, skuli þó haldast við ennþá tveir gagnfræðaskólar fyrir konur, en enginn húsmæðraskóli vera til.

Praktísk afstaða Jónasar til menntunar var ekki einvörðungu bundin við konur og húsmæðraskóla, heldur lagði hann ætíð áherslu á verklegt nám fyrir þorra fólks. Þannig sagði hann það helsta gallann á gagnfræðaskólunum á Akureyri og Hafnarfirði að þar væru nemendur ekki búnir undir ævistarfið:

Vegna þess að líf vort hér er þannig að meiri hluti borgaranna getur ekki lifað án þess að reyna bæði á líkama og sál; fæstir geta lifað á gagnfræðinni einni saman. … En það er þó öllum ljóst að það getur ekki náð nokkurri átt að þessi bær hagi þeirri fræðslu, sem þetta unga fólk, sjómenn, trésmiðir, verkamenn og tilvonandi húsfreyjur, á að njóta, þannig að hún beini hugum þeirra frá þeim störfum, sem það síðar verður að leggja fyrir sig.“

Um mikilvægi húsmæðraskólanna í skólasögunni og jákvæð áhrif þeirra á samfélagsgerðina verður ekki deilt. Þannig rifjar Jóhannes Nordal t.d. upp í nýútkominni bók sinni, Lifað með öldinni, að á þeim sveitabæ sem hann dvaldi sem barn hafi orðið verulegar breytingar til batnaðar á hreinlæti og meðferð matar eftir að dóttirin á bænum kom heim frá námi í húsmæðraskóla. Segir Jóhannes það lýsandi dæmi um þátt kvennaskólanna í „þeirra lífskjarabyltingu sem varð í byggðum landsins á fyrstu áratugum aldarinnar.“ Einnig má vísa í skrif Lofts Guttormssonar prófessors í bókinni Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007 þar sem hann segir að þótt skólarnir hafi augljóslega dregið dám af ríkjandi hugmyndafræði þá megi ekki vanmeta þýðingu þeirra fyrir almenna menntun kvenna sem var mjög takmörkuð á þessum tíma: „Húsmæðraskólarnir voru eina leiðin sem mörgum stúlkum var sæmilega greiðfær til þess að afla sér frekari skólamenntunar, til munns og handa, að loknu barnaprófi.“ Enda var það svo á fjórða áratugnum að þau fáu sem luku námi til undirbúnings háskólanáms voru að fjórðungi afkomendur embættismanna, fjórðungur afkomendur atvinnurekenda, fjórðungur af millistétt, 10% lægri millistétt en einungis 6% afkomendur bænda og 2% synir eða dætur daglaunafólks. Á sama tímabili luku innan við tíu konur háskólanámi hér á landi. Þetta var sá félagslegi veruleiki sem blasir við ⎯ af þeim fáu sem áttu raunhæfar vonir um að ljúka stúdentsprófi eða ganga í háskóla voru sárafáar konur og einungis þær sem tilheyrðu efri lögum samfélagsins. Það var því augljós þörf á annars konar menntun á þessum tíma fyrir þorra ungra kvenna, ekki síst þær sem bjuggu í sveit.

Ingibjörg nefndi það vissulega í ræðum að nútíminn heimtaði meira af konum en hússtjórnarnám og að þær vildu fá að búa sig undir störf á sem flestum sviðum og sækja verslunarskóla, kvennaskóla, kennaraskóla eða jafnvel búnaðarskóla. En það breytir því ekki að Ingibjörg var því einnig fylgjandi að húsmæðraskólar yrðu starfræktir í hverjum landsfjórðungi og það var hennar álit að hér á landi sárvantaði kennaranám í húsmæðrafræðum. Þannig að líklega var ágreiningur Jónasar og Ingibjargar ekki eins djúpstæður og ætla mátti af erindi Kristínar á fundi Sagnfræðingafélagsins að dæma. Ég hef t.d. hvergi fundið heimildir fyrir þvi að Jónas hafi lagst gegn því að konur sæktu fjölbreyttara nám og þvert á móti má lesa eftir hann í Tímariti íslenskra samvinnufélaga að þrjár konur voru meðal nemenda Jónasar í Samvinnuskólanum strax árið 1920, enda var skólinn „jafnt fyrir alla, karla og konur, unga og gamla, ríka sem fátæka.“ En líklega hefur félagslegt raunsæi og ríkur áhugi á víðtæku alþýðunámi orðið til þess að Jónas taldi húsmæðraskóla farsæla leið til þess að valdefla þann mikla fjölda kvenna sem annars hefði farið á mis við nær alla menntun. Um þetta stéttarsjónarhorn fjallaði Jónas t.d. í þingræðu 1927:

En ég vil benda á, að ég hefi frá byrjun haft nokkurn veginn Ijósa hugmynd um það, að ekki hæfir að spenna sömu megingjörð um einyrkjakonu í sveit, sem berst áfram vinnukonulaus vetur og sumar með mörg börn, eins og þær konur, sem alltaf mega lifa í hóglífi. Matreiðslan og hússtjórnin í sveitum er ólík og hjá eyðslusömum konum í bæjum, sem hafa þrjár vinnukonur og dýfa aldrei hendi sinni í kalt vatn.“

Jónas í hópi nemenda Samvinnuskólans við útskrift 1933.

Framfaramaður í menntamálum

Það er í raun fjarstæðukennt að halda því fram að Jónas frá Hriflu hafi haldið aftur af nokkrum einstaklingi þegar nám var annars vegar. Svo einarður baráttumaður var hann fyrir því að allir ættu rétt á menntun að Gylfi Gröndal ritaði svo í eftirmælum um vinina Kjarval og Jónas:

Báðir voru þeir aldir upp í fátækt og fásinni, en brutust undan oki hversdagsstrits og kyrrstöðu og létu háleita drauma sína rætast. … Jónas frá Hriflu gerðist málsvari lítilsmegandi alþýðumanna, gekkst fyrir stofnun tveggja stjórnmálaflokka henni til handa, réðst ódeigur gegn ofurvaldi embættismannastéttar og kaupmanna — og leysti íslenska æsku úr fjötri menntunarleysis. Þeir skópu nýtt og betra Ísland.“

Það er líklega ekki ofsögum sagt að Jónas hafi leyst íslenska æsku úr fjötrum menntunarleysis. Sjálfur var hann kennaramenntaður og hóf að rita um fræðslumál löngu áður en hann settist á þing. Þannig hefur því verið haldið fram að Jónas hafi sett fram einhverja skörpustu gagnrýni sem fram hafi komið á það sem kallaðist latínuskólahefð og þululærdómur. Hann efaðist t.d. um gildi prófa og var andvígur svonefndu landsprófi sem komið var á með lögum 1947 og taldi það girða fyrir þroskaleiðir ungs fólks. Þá taldi hann að áhugaleysi og skólaleiði margra nemenda stafaði af slökum kennslubókum og sjálfur lagði hann sitt af mörkum við að bæta þar úr þegar hann tók saman Ný skólaljóð og samdi kennslubækur í náttúrufræði og Íslandssögu í þremur bindum. Allar þessar bækur vöktu áhuga nemenda á fögunum, þótt sagnfræðin hafi óhjákvæmilega sætt gagnrýni nútíma fræðimanna þegar greinin þroskaðist og efldist. Hann var auk þess talsmaður svonefnd uppgötvunarnáms og ritaði m.a. að nemendur ættu að læra með því að hafa hlutina á milli handanna, „rannsaka þá, mæla, vega, bera þá saman og mynda sér síðan skoðun um þá að þessari athugun lokinni.“ Þannig var hann talsmaður svonefndrar nýskólastefnu sem virti eðli, þarfir og langanir barna, m.a. með því að virkja leikþörf þeirra. Þá var Jónas ætíð þeirrar skoðunar að efla þyrfti kennaramenntun og lagði t.d. fram tillögu um það þegar árið 1936 að uppeldis- og kennslufræði yrði tekin upp við Háskóla Íslands og árið 1930 lagði hann fyrst fram frumvarp um byggingu Háskóla Íslands sem bjó þá við mjög þröngan húsakost.

Í tíð Jónasar sem menntamálaráðherra 1927–1932 voru héraðsskólarnir byggðir, m.a. á Laugarvatni og Reykholti, ráðist var í átak í byggingu barnaskóla og þá voru fyrstu raunverulegu barnaskólarnir í sveit stofnaðir fyrir tilstilli ríkisins. Þá var fyrsta námskráin gefin út 1929, auk skrár yfir löggiltar kennslubækur. Í tíð Jónasar var Menntaskólanum á Akureyri veitt heimild til að brautskrá stúdenta en fram að því hafði Menntaskólinn í Reykjavík setið einn að því. Í Reykjavík var stofnaður gagnfræðaskóli sem var ólíkur öðrum skólum borgarinnar að því leyti að verklegt nám var nánast jafngilt bóklegum fræðum. Árið 1930 voru sett lög um gagnfræðaskóla í Vestmannaeyjum, og á Ísafirði, auk Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Akureyrar þar sem gagnfræðaskólar voru fyrir. Á vegum sumra gagnfræðaskólanna voru starfræktar kvölddeildir sem gerðu fátækum nemendum kleift að sækja menntun samhliða vinnu. Greinargerð með lagafrumarpinu um Gagnfræðaskóla Reykjavíkur 1928 lýsir vel hugmyndafræði Jónasar:

Þar sem allur þorri manna í öllum löndum og á öllum öldum verður að neyta brauðsins í sveita síns andlitis, eða með öðrum orðum vinna erfiðisvinnu, þykir sjálfsagt að vinnunni sé ekki gleymt í slíkum skóla. Allur þorri karlmanna, sem vaxa upp í Reykjavík, leita sér atvinnu á sjónum og allur þorri kvenna sinna hússtjórn einhvern tíma á ævinni. Í ungmennaskóla þarf að vekja virðingu fyrir vinnunni en ekki óbeit og lítilsvirðingu.“

Framfarahugur Jónasar á sviði alþýðufræðslu var ekki einvörðungu bundinn við skóla, því hann auðgaði líka menntun almennings í landinu með því að fá samþykkt lög um byggingu Þjóðleikhússins, um Ríkisútvarpið og um stofnun Menningarsjóðs og menntamálaráðs sem bættu bæði aðstöðu listamanna og námsmanna. Þannig hefur líklega enginn einn Íslendingur skapað tækifæri fyrir eins margt ungt fólk og Jónas frá Hriflu, bæði karla og konur, þvert á það sem kannski hefði mátt ætla af þeim umræðum sem sköpuðust á annars fróðlegu málþingi Sagnfræðingafélagsins um Ingibjörgu H. Bjarnason.

--

--

Guðmundur Hörður

Hér skrifa ég pistla um sagnfræðileg efni, en almenna bloggpistla birti ég á gudmundurhordur.blogspot.com