Hægri stjórnin sem hótaði hernum

Guðmundur Hörður
18 min readMar 23, 2023

Sagan af leiðtogafundinum í Höfða árið 1986 er vel þekkt og ekki síst það afrek íslenskra stjórnvalda að taka á móti Reagan og Gorbachev og heimspressunni með fárra daga fyrirvara. En það er önnur saga sem tengist fundinum í Höfða sem er ekki eins vel þekkt þó að hún hafi varðað hagsmuni Íslands með beinni hætti en sjálfur leiðtogafundurinn. Það er saga tveggja ára langrar deilu íslenskra og bandarískra stjórnvalda, hótana hægri stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um brottvísun bandarískra hersins frá Keflavík, leynilegra samningafunda og neyðarfundar bandaríska þingsins.

Flýtimeðferð hjá bandaríska þinginu

Þriðjudaginn 7. október 1986, tveimur dögum áður en Reagan lagði af stað til leiðtogafundarins í Reykjavík, boðaði hann þá Bob Dole og Robert Byrd, leiðtoga meirihluta og minnihluta Öldungadeildar bandaríska þingsins, til morgunverðarfundar í Hvíta húsinu. Erindi fundarins var m.a. að biðja þessa tvo valdamestu menn bandaríska þingsins um að afgreiða í snarhasti samning sem myndi annars vegar binda endi á harða deilu Íslands og Bandaríkjanna sem hafði staðið frá 1984 og hins vegar koma í veg fyrir vandræðalegar uppákomur í samskiptum forsetans og íslenskra ráðherra í Reykjavík. Dole og Byrd samþykktu að aðstoða forsetann og tóku málið til umræðu og sérstakrar flýtimeðferðar í bandaríska þinginu strax daginn eftir. Robert Byrd tók til máls í þingsal og sagði að forsetinn væri á leið til Íslands morguninn eftir og það væri mikilvægt að hann gæti flutt gestgjöfunum þær fréttir að samningurinn hefði verið borinn upp og staðfestur af Öldungadeildinni. Það var farið að nálgast miðnætti þegar þingmennirnir bandarísku tóku samninginn til atkvæðagreiðslu og samþykktu samhljóða.

Þegar upp var staðið komust sovésk og bandarísk stjórnvöld ekki að samkomulagi um afvopnun á leiðtogafundinum í Höfða. Reagan gat þá huggað sig við að vegna fundarins höfðu bandarískir þingmenn samþykkt samning sem jafnaði ágreining íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Bandaríkin gátu því áfram haldið úti her á þessu „ósökkvandi flugmóðurskipi í miðju Atlantshafinu“ sem gegndi sífellt mikilvægara hlutverki í vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna.

Mikilvægi Íslands í hernaðarlegu tilliti var slíkt að Winston Churchill sagði landið vera eins og ósökkvandi flugmóðurskip í miðju Atlantshafinu. Kortið er frá 1986 og sýnir sýnir mikilvægi Íslands í varnarkerfi Bandaríkjanna í kalda stríðinu. Svörtu hringirnir sýna radareftirlit frá landi en hringurinn norð-austur af Íslandi sýnir svæði sem AWAC ratsjárflugvélar bandaríska hersins gátu haft eftirlit með frá landinu. Rauði punkturinn sýnir miðstöð norðurflota sovéska hersins á Kólaskaga.

Verðmæt viðskipti við herinn

Það kemur eflaust mörgum á óvart að hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem sat 1983–1987 hafi gengið jafn langt, kannski lengra, en vinstri stjórnirnar 1955–58 og 1971–74 í að hóta Bandaríkjunum grundvallarbreytingum á varnarsamningnum, jafnvel að honum yrði slitið og bandaríski herinn rekinn úr landi. Það sem kemur kannski enn frekar á óvart er ástæðan sem lá að baki. Þar var ekki um að ræða vanefndir á varnarsamningnum eða breyttar áherslur íslenskra stjórnvalda í varnarmálum eða vestrænni samvinnu heldur fjárhagslegir hagsmunir íslenskra skipafélaga.

Hér er rétt að rekja forsögu þessarar milliríkjadeilu Íslands og Bandaríkjanna sem hófst árið 1984. Eimskipafélagið sá um skipaflutninga bandaríska hersins milli Ameríku og Íslands til ársins 1952. Þá var það bandaríska skipafélagið Moore-McCormak sem tók við þeim en vegna minnkandi flutninga hersins til Íslands og aukinna umsvifa í flutningum til Víetnam losaði það sig undan Íslandssiglingum árið 1967 og Eimskip tók við þeim aftur. Árið 1978 reyndi Bifröst, nýtt íslenskt skipafélag í eigu bifreiðainnflytjenda, að fá sneið af þessari köku með því að bjóða bandaríska hernum betri kjör. Hófst þá sannkallað verðstríð þar sem flutningsgjöld milli Íslands og Bandaríkjanna lækkuðu um allt að 50%, bæði fyrir her og íslenskan almenning. En eins og Eimskips var háttur á þessum tíma lauk þessari samkeppni á því að félagið bauðst til að kaupa keppinautinn. Þó að yfirtakin yrði ekki endanleg fyrr en 1980 þá lýsti Þjóðviljinn stöðunni svona strax í lok árs 1978: „Farmgjaldastríðinu er því lokið. Samkeppninni er líka lokið. Bifröst er búin að vera. Eimskip vann.“ Þrátt fyrir allt sat Eimskip ekki eitt að flutningunum eftir yfirtökuna þar sem Hafskip hóf siglingar til Bandaríkjanna 1980 og félögin skiptu flutningunum sín á milli, Eimskip með um ⅔ hlutdeild en Hafskip ⅓. Ætla má að einokunarstaða félaganna á þessum tíma hafi leitt til þess að flutningar milli Íslands og Bandaríkjanna hafi verið átta sinnum dýrari en flutningar frá Bandaríkjunum til annarra staða í Evrópu.

Útlend ógn

Það var síðan í byrjun árs 1984 sem bandarískt félag, Rainbow Navigation, gerði sig líklegt til að taka yfir þessa flutninga en samkvæmt bandarískum lögum bar hernum að flytja varning með bandarískum skipum væri þess kostur. Forstjórar íslensku félaganna biðu ekki boðanna og hófu áróður gegn bandaríska fyrirtækinu í fjölmiðlum. Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskips, sagði í viðtali við Morgunblaðið 30. mars þetta ár að fyrirætlanir Rainbow Navigation væru ógn við siglingar íslenskra skipa, enda væri um og yfir helmingur tekna íslensku félaganna af siglingum milli Íslands og Bandaríkjanna fenginn af þessum flutningum. Björgólfur Guðmundsson, forstjóri Hafskips, sagði málið varða hvorki meira né minna en sjálfstæði þjóðarinnar: „Mín skoðun er sú að við megum aldrei sleppa hendi af samgöngum milli Íslands og annarra landa. Útlendingar geta, eins og dæmin sanna, ákveðið á einum degi að hætta siglingum til Íslands.“

Stjórnmálamenn voru ekki lengi að stökkva á vagninn og Helgarpósturinn hafði eftir Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra að íslensk stjórnvöld gætu sett bandaríska hernum þau skilyrði sem þau vildu. Morgunblaðið ræddi við Geir Hallgrímsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem sagði að ráðuneytið og sendiráð Íslands í Washington væru að vinna að lausn málsins og það var síðan rætt á fundi Geirs með George Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Caspar Weinberger varnarmálaráðherra í maí þetta ár. Um sumarið bókaði ríkisstjórnin á fundi að hún leggði áherslu á að flutningar fyrir varnarliðið yrðu í höndum íslenskra aðila. Albert Guðmundsson fjármálaráðherra bókaði þá sérstaklega að hann teldi Bandaríkjastjórn lítilsvirða Ísland með sinni framkomu og því yrði að mæta „af fullri festu“. Ári síðar hitti Geir Hallgrímsson bandaríska utanríkisráðherrann aftur á NATO-fundi og tjáði honum að nú gætu Íslendingar ekki beðið mikið lengur. Þrátt fyrir að Geir vildi sjálfur ekki kannast við það í viðtali við DV að hann hefði hótað endurskoðun varnarsamningsins þá vitnaði blaðið í erlendan fjölmiðil sem hafði eftir embættismönnum bandaríska utanríkisráðuneytisins að málið gæti haft áhrif á stöðu herstöðvarinnar í Keflavík. Átti það að hafa komið fram í svari ráðuneytisins til bandarískra þingmanna en nokkrir þeirra höfðu krafist þess að Bandaríkjastjórn léti ekki undan þrýstingi íslenskra stjórnvalda. Í Business Journal of New Jersey var því síðan haldið fram að Geir hefði ýjað að því óformlega á fundinum með Shultz utanríkisráðherra að framtíð hertöðvarinnar væri í húfi. Á svipuðum tíma sendi aðstoðarmaður Reagans minnisblað til starfsmannastjóra Hvíta hússins þar sem hann hélt því fram að Íslendingar hefðu hótað því að loka Keflavíkurstöðinni.

DV 7. júní 1985.

Þrátt fyrir þessi miklu og hörðu viðbrögð í efsta lagi íslenska valdakerfisins þá heyrðust samt þær raddir í samfélaginu að hér væri ekki um stórkostlega þjóðhagslega hagsmuni að tefla. Þannig sagði t.d. í Vísi 3. apríl 1984 að sjómenn á íslenska kaupskipaflotanum virtust hafa mun minni áhyggjur af málinu en eigendur skipafélaganna og stjórnvöld, enda færu flutningar íslensku félaganna fyrir bandaríska herinn fram með erlendum leiguskipum. Hafskip notaði skip skráð á Spáni með spænskri áhöfn en skipið sem sigldi fyrir Eimskip væri skráð í London og með enskri áhöfn. Fáum dögum síðar greindi svo Vísir frá því að bæði Skipaafgreiðsla Suðurnesja og vörubílstjórar á Suðurnesjum fögnuðu því að Rainbow Navigation tæki við siglingunum þar sem félagið ætlaði að sigla beint til Keflavíkur með vörurnar en íslensku félögin höfðu landað þeim í Reykjavík. Það virðist því óhætt að álykta að í þessari deilu hafi íslensk stjórnvöld gengið lengra í hagsmunagæslu fyrir íslensku skipafélögin en tilefni gaf til.

Korporatismi eða oligarkí?

En hvað gerði það að verkum að hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var reiðubúin að ganga svona langt í samskiptum við Bandaríkjastjórn til að verja hagsmuni sem telja mátti smávægilega í þjóðhagslegu samhengi? Í stórfróðlegri BA-ritgerð Arnórs Gunnars Gunnarssonar er Rainbow Navigation málið rakið með ítarlegum hætti og byggt á skjölum innan úr bandaríska og íslenska stjórnkerfunum. Hefur umfjöllun mín hér að framan byggst að stærstum hluta á henni. Arnór kemst að þeirri niðurstöðu að tengsl íslensku skipafélaganna og stjórnvalda hafi borið einkenni korporatisma, þ.e. stjórnkerfis þar sem ýmsir valdahópar eða elítur úr viðskiptalífi og stjórnmálum starfa saman og með óljós mörk sín á milli. Til marks um það nefnir Arnþór að starfsmenn Eimskips hafi skrifað drög að bréfum sem íslenski utanríkisráðherrann sendi bandarískum stjórnvöldum, bæði Hörður Sigurgestsson og Björgólfur Guðmundsson hafi gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og að Albert Guðmundsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi verið stjórnarformaður Hafskips allt þar til hann tók við við embætti fjármálaráðherra 1984.

Þessu er ég sammála en tel þó að Arnór hefði mátt greina tengsl viðskipta og stjórnmála enn betur. Það hefði skotið enn sterkari stoðum undir hans niðurstöður og jafnvel sýnt fram á að íslenska valdakerfið bæri ekki bara einkenni korporatisma heldur mætti jafnvel álykta að Rainbow Navigation málið bæri skýr einkenni fáveldis, eða oligarkí, þar sem stjórn landsins er í höndum fámenns hóps í krafti pólitískrar stöðu og eignarhalds á þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum og fjölmiðlum. Í þessu máli var það sjálfur utanríkisráðherrann, Geir Hallgrímsson, sem stóð í innsta kjarna valdakerfisins á þessum tíma, í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum. Valdakjarninn í kringum Geir virðist hafa haft svo sterk tök á íslensku stjórnkerfi á síðari hluta 20. aldar að jafnvel valdamesta ríki heims varð að taka tillit til hagsmuna Eimskipafélagsins.

Mynd frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1973. Jónas Haralz, bankastjóri Landsbankans 1969–1988, Geir Hallgrímsson, formaður flokksins 1973–1983, Guðmundur K. Magnússon háskólarektor 1979–1985 og Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskips 1979–2000.

Ríkasta fyrirtæki landsins

Geir Hallgrímsson, borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, erfði viðskiptaveldi föður síns, Hallgríms Benediktssonar, eins ríkasta manns landsins á sinni tíð og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hallgrímur var ekki efnaður þegar hann fluttist til Reykjavíkur ungur að árum, en hann átti engu að síður nákomna frændur sem voru forstjórar, þingmenn og bankastjórar, þ.á m. Kristján Jónsson sem var gæslustjóri Landsbankans 1898–1909, ráðherra Íslands 1911–1912 og bankastjóri Íslandsbanka 1912–1914. Hallgrímur hóf rekstur eigin heildverslunar, H. Benediktsson & Co. árið 1911 og átti eftir að efnast vel á innflutningi frá Bandaríkjunum þegar lokaðist fyrir viðskipti við Evrópu í fyrri heimsstyrjöld. Auðinn nýtti hann svo til að fjárfesta í fyrirtækjum í heildsölu, sælgætisframleiðslu, bílainnflutningi, olíumarkaði, tryggingum, fjölmiðlum og skipafélagi — sjálfu Eimskipafélaginu. Meðal þeirra fjölmörgu umboða sem hann aflaði sér var hjá erlendri skipasmíðastöð sem smíðaði m.a. fjölda skipa fyrir Eimskipafélagið. Hallgrímur tók sæti í stjórn Eimskipafélagsins 1921 og sat þar í 33 ár þar til hann lést árið 1954, þrjú síðustu árin sem stjórnarformaður. Í minnigarorðum um Hallgrím skrifaði eftirmaður hans í stjórnarformannsstólnum að þrátt fyrir aðkomu Hallgríms að mörgum fyrirtækjum og félögum þá hafi engin stofnun verið honum eins hugleikin og Eimskipafélagið.

Þegar Hallgrímur féll frá árið 1954 var Eimskipafélagið orðið gríðarlega ríkt félag á íslenskan mælikvarða og ráðandi í öllum samgöngum til og frá landinu með eignarhlut sínum í Flugfélagi Íslands. Eins og í flestu öðru í íslensku samfélagi þá markaði síðari heimsstyrjöldin þáttaskil í rekstri félagsins. Bandaríkin tóku að sér að verja Ísland árið 1941 og skuldbundu sig þá til að tryggja að vöruflutningar til landsins legðust ekki af. Íslensk stjórnvöld fengu þar af leiðandi nokkur skip til afnota gegn hóflegri leigu sem þau létu Eimskip hafa á sömu kjörum, en ekki Ríkisskip, skipafélagið sem var þó í opinberri eigu. Það er vert að hafa í huga að atvinnumálaráðherra á þessum tíma var Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins og einn stærsti vinnuveitandi landsins í gegnum Kveldúlf, útgerðarfyrirtæki sitt og fjölskyldu sinnar. Mágur hans var Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélagsins 1930–1962 og í stjórn félagsins á þessum tíma sat m.a. bróðir hans, Richard Thors. Það var til marks um áhrif Thors-fjölskyldunnar í Eimskipi að þegar mágur Ólafs Thors lét af störfum var bróður Ólafs og tengdasonur bróðurs Hallgríms Benediktssonar, Thor Thors, boðið starfið sem hann afþakkaði. Þess í stað var Óttarr Möller, svili Björns Hallgrímssonar Benediktssonar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinaðra verktaka, ráðinn forstjóri.

Eimskip hafði notið skattfrelsis frá stofnun og því safnaðist upp mikill gróði af rekstri leiguskipanna, auk þess sem félagið keypti sitt stærsta skip úr leiguflotanum á góðum kjörum hjá Bandaríkjastjórn. Eimskip var því líklega lang ríkasta fyrirtæki landsins að lokinni heimsstyrjöld. Í grein sem Jónas frá Hriflu skrifaði árið 1955 um skattfrelsi Eimskipafélagsins og Sambands íslenskra samvinnufélaga segir hann að varanlegt skattfrelsi fyrirtækja eins og Eimskips eigi sér ekki fordæmi í grannlöndum Íslands, auk þess sem skattfrelsið sé þröskuldur í vegi frjálsrar samkeppni:

Það verður sýnilega mjög erfitt fyrir hið frjálsa framtak á Íslandi að efna til nýrra siglingafélaga, ef stærsta útgerðarfyrirtæki landsins getur, vegna skattamálaaðstöðu, boðið betur um kaup, kjör og önnur hlunnindi fram yfir væntanlega keppinauta. Sumum forráðamönnum Eimskipafélagsins mun vera orðið ljóst, að það verður bundið miklum annmörkum að framlengja skattfrelsi félagsins á ókomnum árum.“

Skattfrelsi Eimskipafélagsins var afnumið ári síðar, 1956, en þá var félagið engu að síður komið í þá yfirburða stöðu sem gerði það að verkum að það gat bolað öðrum af markaði, eins og rakið var hér að ofan í tilfelli Bifrastar.

Geir Hallgrímsson og Halldór H. Jónsson

Fljótlega eftir að Hallgrímur féll frá gerðist Geir sonur hans forstjóri fjölskyldufyrirtækisins og tók auk þess sæti í fjölda stjórna, þ.á m. hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, þar sem hann fór með meira en helmingshlut í samstarfi við aðra kaupsýslumenn, þar á meðal Garðar Gíslason. Í stjórn Árvakurs sat þá líka Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins 1961–1970, en milli hans og Geirs Hallgrímssonar var náið samstarf og trúnaður. Báðir nutu þeir þess í stjórnmálum og viðskiptum að stjórna víðlesnasta dagblaði landsins og vera nokkurs konar skuggaritstjórar þess. Bjarni sat líka í stjórn Eimskips árin 1954–1964. Geir tók einnig sæti í stjórn Sjóvár, stærsta tryggingafélags landsins, og sat þar m.a. með Sveini Benediktssyni, bróður Bjarna og afa Bjarna Benediktssonar, núverandi formanns Sjálsftæðisflokksins. Þannig voru jafnan sterk tengsl milli Geirs Hallgrímssonar og Engeyjarættarinnar í gegnum Morgunblaðið, Sjóvá og Almenna bókafélagið, fyrir utan hin sterku pólitísku tengsl þar sem Geir var undir verndarvæng Bjarna Benediktssonar. Geir átti síðar eftir að launa það með því að taka Björn, son Bjarna Benediktssonar, í pólitískt fóstur, t.d. þegar Geir varð forsætisráðherra 1974 og réð Björn til starfa í ráðuneytið og síðan sem aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins árið 1984.

Forsíða Morgunblaðsins daginn sem gengið var til Alþingiskosninga 1978. Þá var Geir Hallgrímsson bæði stjórnarformaður útgáfufélags Morgunblaðsins, víðlesnasta dagblaðs landsins, og forsætisráðherra.

Á sama tíma og Geir erfði auð og völd föður síns var hann að leggja grunninn að samstarfi við vin sinn Halldór H. Jónsson, tengdason hins risans í íslenskri kaupmannastétt, Garðars Gíslasonar, sem hafði m.a. tekið virkan þátt í stofnun Eimskipafélagsins og átti þátt í stofnun Sjóvar. Halldór naut tenglsa sinna innan Sjálfstæðisflokksins þegar Bjarni Benediktsson, þá utanríkisráðherra, fól Halldóri að fara fyrir nefnd sem samdi við Bandaríkjaher um verkstakastarfsemi. Í kjölfarið var hann í forsvari þegar Sameinaðir verktakar voru stofnaðir og fengu einkaleyfi á framkvæmdum fyrir herinn. Halldór átti hlut í félaginu og var stjórnarformaður þess en Geir Hallgrímsson var ráðinn í starf framkvæmdastjóra fyrirtækisins og flutti t.d. mál fyrir dómstólum þar sem fyritækið sóttist eftir undanþágu frá sköttum. Fleiri úr valdaneti Sjálfstæðisflokksins störfuðu hjá fyrirtækin, þ.á m. Thor Ó. Thors, sonur Ólafs Thors, sem varð forstjóri Sameinaðra verktaka og sat víða í stjórnum með þeim fóstbræðrum Geir og Halldóri, m.a. í Eimskipi og Skeljungi. Í kjölfar Alþingiskosninga 1953 mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ríkisstjórn og fastmótuðu helmingaskiptakerfið í verktakastarfsemi fyrir herinn þegar Íslenskir aðalverktakar voru stofnaðir þar sem Sameinaðir verktakar fengu helmingshlut en Reginn, félag Sambands íslenskra samvinnufélaga og framsóknarmanna, fékk fjórðungshlut auk eignarhlutar í Sameinuðum verktökum. Íslenskir aðalverktakar urðu þannig að stórveldi í íslensku athafnalífi, stórveldi sem var lýst svo í leiðara Alþýðublaðsins 1989: „Samkvæmt nýlegum bandarískum skýrslum eru Íslenskir Aðalverktakar eitthvert mesta okurfyrirtæki á byggðu bóli. Fyrir nokkrum árum kvörtuðu bandarísk yfirvöld yfir því að framkvæmdir verktaka á Íslandi væru 150% dýrari en framkvæmdir sömu gerðar fyrir bandarísk hernaðaryfirvöld á öðrum hersvæðum.

Stjórn tryggingafélagsins Sjóvar árið 1958. Frá vinstri: Halldór Kr. Þorsteinsson, Lárus Fjeldsted, Sveinn Benediktsson, Ingvar Vilhjálmsson og Geir Hallgrímsson.

Þeir Geir og Halldór komu víðar við í viðskiptalífinu og tóku í sameiningu þátt í rekstri Sjóvá og Skeljungs og stofnun félaga eins og Steypustöðvarinnar og Áburðarverksmiðjunnar. Áburðarverksmiðjan var í raun fyrsta stóriðja Íslendinga og reist á vegum ríkisins fyrir fé frá Bandaríkjastjórn, þó að einkafjárfestar úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki fengju að eignast um helmingshlut í félaginu. Þá fléttuðust hagsmunir Geirs og Halldórs enn einu sinni saman þegar samið var um álverð til álversins í Straumsvík, Halldór var þá stjórnarformaður ÍSAL og Geir stjórnarmaður í Landsvirkjun. Ráðherra raforkumála var þá persónulegur vinur og viðskiptafélagi þeirra beggja, Ingólfur Jónsson frá Hellu. Mörg dæmi voru um að áhrif Ingólfs innan stjórnkerfisins nýttist fyrirtækjum Halldórs, t.d. var Ingólfur samgönguráðherra þegar Íslenskum aðalverktökum, undir stjórnarformennsku Halldórs, var falið það stórvirki að steypa Reykjanesbrautina.

Örlagaárið 1974

Árið 1974 reyndist örlagaár í sögu þeirra Geirs og Halldórs. Halldór settist í stjórn Eimskips 1965 en um 1971 hóf hann markviss kaup hlutabréfa í félaginu fyrir sig og fjölskyldu sína og í nafni Sameinaðra verktaka. Hann var því kominn í stöðu til að geta krafist stjórnarformennsku þegar hún losnaði árið 1974. Þetta sama ár náði Geir líka æðstu metorðum á stjórnmálasviðinu þegar hann varð forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hann var borgarstjóri árin 1959–1972, á þeim tímum þegar Sjálfstæðisflokkurinn var einráður í borginni, útdeiling gæða eins og lóða og starfa fór fram á pólitískum forsendum og símar pólitískra andstæðinga flokksins voru hleraðir. Geir var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins árið 1973 og ári síðar varð hann forsætisráðherra. Það má því með sanni segja að þeir vinirnir hafi verið orðnir valdamestu menn landsins árið 1974 með sterk tök á stjórnmálakerfinu og stærstu fyrirtækjum landsins. Halldór átti eftir að tróna á toppi íslensks atvinnulífs allt til dauðadags 1992, gjarnan nefndur ,,stjórnarformaður Íslands”, en tími Geirs á toppnum varð til muna styttri vegna klofnings í Sjálfstæðisflokknum og óvinsælla ákvarðana í kjaramálum. Hann sat því einungis fjögur ár í forsætisráðuneytinu, en nýtti síðustu dagana eftir kosningar 1978 m.a. til að skipa son Halldórs vinar síns í embætti húsameistara ríkisins.

Fimm árum síðar, 1983, varð Geir utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og það var þá sem hann fékk Rainbow Navigation málið inn á sitt borð. Það þarf varla nokkur að velkjast í vafa um að tengsl hans við Halldór H. Jónsson og aðra stjórnendur Eimskips hafi haft áhrif á það hvernig íslensk stjórnvöld beittu sér í málinu. Í stjórn Eimskips sátu þá bandamenn hans í viðskiptum og stjórnmálum, t.d. Indriði Pálsson, Ingvar Vilhjálmsson og Thor R. Thors. Allir stjórnarmennirnir höfðu sterk tengsl við Sjálfstæðisflokkinn, nema tveir sem töldust til Framsóknarflokksins. Boðleiðirnar úr Eimskipafélagshúsinu í utanríkisráðuneytið eru því augljósar.

Niðurstaða Rainbow Navigation málsins

Eins og rakið er í áðurnefndri ritgerð Arnórs Gunnars Gunnarssonar fóru fram erfiðar samningaviðræður milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um lausn deilunnar um skipaflutninganna, m.a. á leynifundi í Lundúnum í september 1986. Að lokum náðust samningar um að flutningarnir yrðu boðnir út og að það skipafélag sem byði lægst verð, hvort sem það væri bandarískt eða íslenskt, fengi 65% vöruflutninganna en næstbjóðandi frá hinu landinu fengi 35%. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykkti samninginn 23. september og öldungadeild bandaríska þingsins þann 8. október eins og áður segir, kvöldið áður en að Reagan hélt til fundar við Gorbachev á Íslandi.

Það var ekki leiðtogafundurinn sjálfur sem gerði það að verkum að samningar náðust en hann flýtti óneitanlega fyrir gangi málsins á Bandaríkjaþingi. Það var sjálf lega Íslands í Norður-Atlantshafi sem réði úrslitum Rainbow Navigation málsins á viðkvæmum tímapunkti kalda stríðsins, þegar Bandaríkin höfðu skuldsett landið gríðarlega til að sigra vopnakapphlaup stórveldanna. Eins og Reagan sagði sjálfur í ræðu sem hann flutti fyrir bandaríska hermenn í Keflavík áður en hann hélt af landi brott þá gerði lega landsins það að verkum að Ísland var mikilvægt í baráttunni um Norður-Atlantshaf í síðari heimsstyrjöld en núorðið væri það enn mikilvægara í baráttunni við Sovétríkin. Það var þetta mikilvægi sem gaf íslensku ólígörkunum Halldóri H. Jónssyni og Geir Hallgrímssyni tök á að neyða valdamesta stórveldi heims til að gefa smávægilegum viðskiptahagsmunum lítils skipafélags á Íslandi sértstakan gaum og leita leiða til að víkja frá bandarískum lögum frá 1904.

Í útboði bandaríska hersins árið 1987 reyndist Eimskip eiga lægsta boðið og fékk þannig 65% af flutningunum hersins (voru 16% árið 1985) eins og kveðið var á um í samningnum en Rainbow Navigation fékk rest (hafði áður 73%). Bandaríska félagið hætti siglingum til Íslands 1991 og tók Eimskipafélagið þá að sér flutningana að fullu en tapaði þeim aftur í útboði 1992. Árið 2006 lokaði bandaríkjastjórn herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og voru þá þessi vöruflutningar endanlega úr sögunni.

Veru Geirs Hallgrímssonar í utanríkisráðuneytinu lauk áður en endanleg niðurstaða fékkst í deiluna. Hann naut stöðu sinnar í valdakerfinu þegar hann yfirgaf stjórnmálin og varð bankastjóra Seðlabankans árið 1986. Af því tilefni spurði Helgarpósturinn hvort að eignarhald hans í stórfyrirtækjum samræmdist ekki illa starfi hans sem seðlabankastjóra. Geir svaraði: ,,Alveg áreiðanlega ekki. Ég er ekki í stjórn þeirra og þar að auki eru þau ekki skuldsett Seðlabankanum, eins og gefur að skilja.” Halldór H. Jónsson var stjórnarformaður Eimskipafélagsins til dauðadags 1992 og hafði þá fengið viðurnefnið „stjórnarformaður Íslands“ vegna áhrifa sinna í viðskiptalífinu.

Geir Hallgrímsson sat í stjórn útgáfufélags Morgunblaðsins, víðlesnasta dagblaðs landsins, í 32 ár meðfram störfum sínum sem borgarstjóri, forsætis- og utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Myndin er tekin 1983 þegar Geir var formaður stjórnar og jafnframt utanríkisráðherra.

Arfleifð Geirs og Halldórs

Áhrifa Geirs Hallgrímssonar og Halldórs H. Jónssonar átti eftir gæta í íslensku samfélagi langt eftir þeirra dag. Á stjórnmálasviðinu áttu þeir stóran þátt í frama Davíðs Oddssonar innan Sjálfstæðisflokksins. Eins og fyrri formenn Sjálfstæðisflokksins hlutaðist Geir til um það hver yrði eftirmaður sinn. Davíð Oddsson sagði sjálfur þá sögu í grein í Andvara árið 1994. Geir boðaði bæði Davíð og Þorstein Pálsson á sinn fund í utanríkisráðuneytinu sumarið 1983 og sagðist reiðubúinn til að styðja annan hvorn þeirra til formennsku: „Hann vildi ekki gera upp á milli okkar, en tók það hins vegar fram, að sennilega væri ég líklegri til að ná kjöri.“ Það fer ekki á milli mála að Davíð var það leiðtogaefni innan Sjálfstæðisflokksins sem Geir og Halldór báru mestar vonir við. Þannig valdi Geir að hafa Davíð með sér á fundi Bilderbergs hópsins og Halldór valdi Davíð til að stýra aðalfundum Eimskipafélagsins, fínustu samkomum viðskiptalífsins á þessum árum. Svo náin bönd voru milli Davíðs og Halldórs H. Jónssonar að Davíð var líkmaður í útför hans og í nýútkominni bók um Halldór ritar Davíð inngangsorð. Það má því með sanni segja að áhrifa Geirs og Halldórs hafi gætt í íslenskum stjórnmálum eftir þeirra daga þar sem Davíð Oddsson átti eftir að verða áhrifamesti stjórnmálamaður landsins um langt skeið og stýrði m.a. spilltri og örlagaríkri einkavæðingu bankanna árið 2002.

Morgunblaðið birti mynd frá útför Halldórs H. Jónssonar. Fremstir líkmanna voru Davíð Oddsson forsætisráðherra og Jóhannes Nordal seðlabankastjóri.

Áhrifa Geirs og Halldórs og fjölskyldna þeirra gætti einnig lengi í viðskiptalífinu. Á svipuðum tíma og Rainbow Navigation stóð var unnið að grundvallarbreytingum á íslenska fjármálakerfinu sem áttu eftir að hafa miklar afleiðingar. Fjármagn var tryggt gegn verðbólgu með lögum um verðtryggingu árið 1979 og frá 1984 var bönkum gefið vald til að ákveða vexti. Þar með var ekki lengur hægt að byggja völd í viðskiptalífinu á að úthluta peningum úr ríkisbönkum á neikvæðum vöxtum. Þetta gerði það að verkum að viðskiptaveldi Sambands íslenskra samvinnufélaga féll saman eins og spilaborg. Halldór H. Jónsson og viðskiptablokk Sjálfstæðisflokksins virðast hins vegar hafa verið betur undirbúin fyrir þessar grundvallarbreytingar í hagkerfinu og sóttu til aukinna valda innan hins nýfrjálsa bankakerfis. Eins og segir í nýrri bók um Halldór, Halldór H. Jónsson arkitekt, þá fóru undirbúningsfundir að stofnun Íslandsbanka fram á heimili Halldórs, en áhrif hans í þeim viðskiptum byggðu m.a. á því að Eimskip og Íslenskir aðalverktakar voru stórir hluthafar í Verslunarbankanum og Iðnaðarbankanum. Þessir bankar fengu að kaupa Útvegsbanka af ríkinu og úr sameiningu þessara banka var stofnað til Íslandsbanka í ársbyrjun 1990.

Að Halldóri látnum sátu synir hans þrír í stjórnum fjölda fyrirtækja, þ.á m. Eimskips, Sameinaðra verktaka, Sjóvár, Flugleiða og Morgunblaðsins. Kristinn Björnsson, bróðursonur Geirs Hallgrímssonar, var forstjóri Skeljungs en sat einnig í stjórnum Eimskips, Sjóvár og Morgunblaðsins og synir Geirs tóku við kefli föður síns í Morgunblaðinu og fleiri fyrirtækjum. Synir Sveins Benediktssonar úr Engeyjarfjölskyldunni urðu sífellt valdameiri innan þessa kerfis, Einar sem framkvæmdastjóri Sjóvár og bankaráðsmaður í Íslandsbanka og Sveinn í stjórnum Eimskips, Flugleiða, Sjóvár og fleiri stórfyrirtækja. Gríðarleg fjármálavæðing íslensks viðskiptalífs, m.a. með opnun á alþjóðlegan peningamarkað og veðsetningu kvótans, leiddi á endanum til þess að þessi hópur sem hefur gjarnan verið uppnefndur kolkrabbinn missti valdastöðu sína í viðskiptalífinu. Það gerðist í raun á einni nóttu í september 2003, svonefndri „nótt hinna löng bréfahnífa,“ sem Eimskipafélagið og fleiri félög gengu þeim úr greipum í mikilli uppskiptingu stórfyrirtækja. Í þessum viðskiptum missti t.d. Engeyjarfjölskyldan áhrif sín í Eimskip en fékk aftur á móti sterkari stöðu í Íslandsbanka sem hún hélt allt fram að bankahruni 2008. Aðrar fjölskyldur í kolkrabbanum högnuðust líka vel á þessu uppgjöri fjárhagslega þó að valdastaða þeirra í viðskiptalífinu hefði veikst. Þannig urðu til fjölmörg fjárfestingafélög á þeirra vegum sem sum hver rata í fjölmiðla enn þann dag í dag vegna uppgjörs í kjölfar bankahrunsins, t.d. dómsmáls sem afkomendur Hallgríms Benediktssonar standa í hverjir gegn öðrum vegna fjárfestingafélagsins Gnúps. Haft hefur verið eftir einum afkomanda Hallgríms að eignir sem tók þrjár kynslóðir að byggja upp hafi horfið á örfáum mánuðum.

Fjórar fjölskyldur fóru með tögl og hagldir í íslensku samfélagi á seinni helmingi 20. aldar með stjórn á Sjálfstæðisflokknum, Morgunblaðinu og nokkrum stórfyrirtækjum. Myndin sýnir net Thors-fjölskyldunnar, Engeyinga, Hallgríms Benediktssonar og Garðars Gíslasonar. Fyrir utan fjölda stjórnarmanna og forstjóra í Eimskipi, Sjóvá, Skeljungi, Íslenskum aðalverktökum, Morgunblaðinu, útgerðarfélögum og ýmsum samtökum atvinnulífsins þá er þarna að finna fimm formenn Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og fjóra bankastjóra. Enn er þarna að finna menn í áhrifastöðum, t.d. núverandi formann Sjálfstæðisflokksins og stjórnarformann Arion banka.

Það land er líklega vandfundið í hópi vestrænna lýðræðisríkja á síðari helmingi 20. aldar þar sem völdin í samfélaginu söfnuðust fyrir á eins fárra höndum og á Íslandi. Hér var fámennur hópur manna sem stjórnaði stærsta tryggingafélagi landsins, stærsta olíufyrirtækinu, stærsta skipafélaginu, stærsta flugfélaginu, stærsta verktakafyrirtækinu, víðlesnasta dagblaðinu og hafði sterk ítök innan bankanna. Stjórn þessa hóps á stærsta stjórnmálaflokki landsins gerði honum síðan kleift að njóta einokunar á viðskiptum við bandaríska herinn og aðgangs að fjármagni í bönkum á neikvæðum vöxtum, þ.e. lægri vöxtum en sem námu verðbólgu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá skiptir kannski minnstu máli hvort við skilgreinum þetta stjórnarfar sem korporatisma eða óligarkí. En það sem skiptir öllu máli er að við þekkjum þessa sögu því að hún mótar enn hagsmunaátök og stjórnmálasiðferði dagsins í dag og útskýrir að hluta mörg þeirra deilumála sem við stöndum frammi fyrir, t.d. umdeildar einkavæðingar ríkiseigna og auðsöfnun í skjóli ríkisvaldsins, t.d. í útgerð og á fjármálamarkaði.

-

Helstu heimildir við ritun þessa pistils er áðurnefnd ritgerð Arnórs Gunnars Gunnarssonar, ýmsar greinar í dagblöðum, bækurnar Íslensku ættarveldin og Eimskipafélag Íslands í 100 ár eftir Guðmund Magnússon og greinar Guðjóns Friðrikssonar um íslenskar valdaættir sem birtar voru í tímaritinu Heimsmynd.

--

--

Guðmundur Hörður

Hér skrifa ég pistla um sagnfræðileg efni, en almenna bloggpistla birti ég á gudmundurhordur.blogspot.com