Aldarlöng ítök í bankakerfinu

Guðmundur Hörður
10 min readSep 3, 2023

Afskipti Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, af bankakerfinu hafa enn einu sinni valdið almennri óánægju í samfélaginu. Þessi afskipti hans hafa nú staðið í rúman áratug og eru vel skjalfest í dómsskjölum og Rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið. Afskipti fjölskyldu Bjarna, svonefndrar Engeyjarættar, af bankakerfinu ná hins vegar miklu lengra aftur í söguna, eða rúma öld — fjórar kynslóðir.

1. þáttur: Benedikt Sveinsson

Fyrstu skref Engeyinga á bankasviðinu steig Benedikt Sveinsson, langafi fjármálaráðherra, einn ákafasti baráttumaður íslenskra sjálfstæðissinna á fyrri hluta 20. aldar. Hann ólst upp á Húsavík í Þingeyjarsýslu þar sem þjóðernisstefnan og andstaðan við danska kaupmenn varð hvað kröftugust, en flutti ungur til Reykjavíkur til að ganga í skóla. Þar tók hann þátt í stofnun Landvarnarflokksins 1902, ritstýrði flokksmálgagni og fór fremstur í flokki sjálfstæðishreyfingarinnar með mönnum eins og Einari Bendiktssyni, Bjarna frá Vogi og Skúla Thoroddsen. Hvort það sé síðan tilviljunum háð, eða til marks um seigfljótandi valdatauma í samfélaginu, þá eru barnabarnabörn Benedikts og Skúla þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Benedikt var ætíð tryggur bandamaður Skúla og studdi hann t.d. þegar litlu munaði að Skúli yrði forsætisráðherra 1911. Benedikt var kosinn á þing 1908 í harðvítugum kosningum um það hvort miðla ætti málum við Dani í sjálfstæðismálinu eða setja fram ýtrustu kröfur.

Að fengnu fullveldi 1918 þurftu stjórnmálamenn eins og Benedikt að fóta sig í nýju umhverfi stéttastjórnmála og í hans tilfelli reyndist Jónas frá Hriflu, leiðtogi Framsóknarflokksins, mikill örlagavaldur. Á milli þeirra voru talsverð tengsl þar sem þeir voru sveitungar, Jónas leigði um hríð hjá tengdaforeldrum Benedikts úr Engey, auk þess sem Benedikt og eiginkona Jónasar voru systkinabörn. Þá deildu þeir Benedikt og Jónas hugsjón Ungmennafélaganna sem höfðu tekið upp hvítbláa fánann sem Benedikt hafði ætlað sjálfstæðu Íslandi. Nýstofnaður Framsóknarflokkur Jónasar komst í lykilstöðu við stjórn landsins í kosningum 1917 og líkt og greint er frá í ævisögu Jónasar eftir Guðjón Firðriksson þá ætlaði flokkurinn að gera Benedikt að ráðherra sínum þótt hann væri ekki í Framsóknarflokknum. Það var Jón Magnússon forsætisráðherra sem kom í veg fyrir það þar sem hann taldi slíkt ekki í anda þess stjórnarsáttmála sem lá fyrir um skiptingu ráðuneyta milli flokka. Jónas frá Hriflu var á þessum árum í pólitískri krossferð við að efla verslun Sambands íslenskra samvinnufélaga í samkeppni við kaupmenn og Guðjón Friðriksson segir að það hafi orðið eitt helsta áhugamál Jónasar að ná völdum í Landsbankanum, sem þá var annar tveggja banka hér á landi.

Framsóknarflokkurinn komst í aðstöðu til að velja bankastjóra Landsbankans sem var í ríkiseigu og fór svo að Benedikt var ráðinn í stöðuna árið 1918, til að „gera Benedikt tryggan bandamann Framsóknarmanna“, með þeim skilyrðum að hann héldi fram rétti samvinnufélaganna og að hann drykki ekki. Það fór svo að Benedikt starfaði aðeins í bankanum í þrjú ár en gekk engu að síður í Framsóknarflokkinn 1927. Það var svo í pólitísku uppgjöri í kjölfar Stóru bombunnar sem Jónas hrakti Benedikt bæði af þingi og úr flokknum, en Benedikt og Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, voru svilar. Dóttir Jónasar hefur birt minningarbrot um þessi vinslit sem segir talsvert um það hvernig böndin verða til í stjórnmálum, ekki síst í fámennu samfélagi eins og Íslandi:

„Ég minnist þess í æsku, þegar farið var að kólna í pólitíkinni milli Benedikts Sveinssonar og pabba, að Benedikt hringdi stundum til mömmu, þegar hann var við skál og sagði þá gjarnan: „Guðrún mín! Af öllum mínum frænkum þykir mér vænst um þig.“ Mamma hafði dvalið hjá þeim hjónum um vetur, þegar hún var innan við tvítugt og sótti matreiðsluskóla hér í Reykjavík. Mikil vinátta myndaðist einnig á milli móður minnar og Guðrúnar Pétursdóttur, konu Benedikts Sveinssonar, en hin miskunnarlausu stjórnmál höfðu lag á að eyðileggja mörg vináttubönd.“

Þessi málalok áttu eftir að hafa örlagarík áhrif á íslensk stjórnmál þar sem synir Benedikts fundu sér allir vettvang í Sjálfstæðisflokknum og áttu eftir að skipa innsta valdakjarna hans um árabil, þ.á.m. í bankakerfinu.

Benedikt Sveinsson á Þingvöllum 1945. Þó að Benedikt hafi aldrei setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þá hefur hann engu að síður fengið hlutverk í sögumótun flokksins, enda faðir eins formanns flokksins og langafi núverandi formanns. Myndin er fengin af bjz.is og þar segir að myndin hafi verið prentuð „að minnsta kosti tveggja metra há“ og höfð til sýnis á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um aldamótin 2000.

2. þáttur: Sveinn, Bjarni og Pétur Benediktssynir

Synir Benedikts, þeir Sveinn, Bjarni og Pétur, urðu allir valdamiklir, hver á sínu sviði, enda allir miklum hæfileikum gæddir og svo miklir ákafamenn að það jaðraði líklega við ofstæki. Bjarni varð snemma handgenginn Ólafi Thors, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem var í þá tíð bæði auðugasti og valdamesti maður landsins. Síðar varð Bjarni sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og borgarstjóri auk þess sem hann tók sæti í stjórnum útgáfufélags Morgunblaðsins og Eimskipafélagsins. Sveinn, elstur þeirra bræðra og afi núverandi fjármálaráðherra, var sá þeirra sem gerðist útgerðarmaður og athafnamestur í íslensku viðskiptalífi. Pétur Benediktsson, sá þeirra bræðra sem hafði mest bein afskipti af bankamálum sem bankastjóri Landsbankans frá 1956 til æviloka árið 1969, var tengdasonur Ólafs Thors. Ólafur og bræður hans virðast hafa lagt talsverða áherslu á að ná tökum á bankakerfinu, enda sjálfir í rekstri stærsta útgerðarfyrirtækis landsins, og voru þrír tengdasynir þeirra skipaðir bankastjórar á pólitískum forsendum. Auk Péturs voru það tengdasonur Kjartans Thors, Stefán Hilmarsson, bankastjóri Búnaðarbankans 1962–1990 og tengdasonur Hauks Thors, Jóhann Hafstein, bankastjóri Útvegsbankans 1952–1963.

Það er til marks um hve mikið trúnaðarsamband var á milli Ólafs Thors og bræðranna úr Engey að strax árið 1940 beitti Ólafur áhrifum sínum til að tryggja Pétri sendiherrastöðu í London. Frá því segir svo í ævisögu Péturs eftir Jakob F. Ásgeirsson:

,,En á fundi nefndarinnar síðla í janúar gerði valdamesti nefndarmaðurinn, Magnús Sigurðsson, Landsbankastjóri, uppsteit og sagði að til London yrði að senda ,,besta manninn“. Það var að hans áliti Stefán Þorvarðarson. … Richard Thors mótmælti harðlega og vildi standa fast við fyrri ráðagerðir. En Magnús sýndist staðráðinn í að hafa sitt fram og var fundi frestað til að afstýra vandræðum. Töldu menn það vaka fyrir Magnúsi að búa í haginn fyrir son sinn, Magnús Vigni, síðar sendiherra, sem ráðist hafði nýútskrifaður lögfræðingur til skrifstofu utanríkismála 1937. … Blandaði Ólafur Thors sér nú í málið og mætti á næsta fund nefndarinnar. Hreyfði þá enginn nefndarmanna mótbárum gegn ráðningu Péturs“.

Sex árum síðar kvæntist Pétur dóttur Ólafs Thors og þá leið ekki á löngu þar til hann var kallaður til verka í bankakerfinu. Eins og segir í áðurnefndri ævisögu Péturs þá var sú skipun rammpólitísk og liður í því að efla tök Sjálfstæðisflokksins og fyrirtækja tengdum honum á bankanum, sem þótti þá orðinn of vilhallur fyrirtækjum Framsóknarflokksins. Vitnar höfundur í bréf sem Ólafur ritaði Pétri tengdasyni sínum árið 1955 þar sem hann segir að í Landsbankann vanti „vitiborinn kraftamann“ og í leit að honum hafi hann og Bjarni Benediktsson staðnæmst við Pétur. Pétur gegndi starfi bankastjóra Landsbankans til dánardags 1969 og hafði þá að auki verið þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1967. Fram kemur í ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson að Sveinn, bróðir Péturs, hafi skipt sér talsvert af því hver tæki við starfi bankastjóra eftir Pétur:

„Síldarverksmiðjur ríkisins komust í kröggur við hrun síldveiðanna og þurftu að mæta velvilja og skilningi í Landsbankanum. Sveini Benediktssyni, stjórnarformanni verksmiðjanna, fannst það örugglega slæm tilhugsun að verða þá að leita á náðir Gunnars Thororddsens.“

Sveinn, afi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, varð ríkastur þeirra bræðra og það voru umsvif hans í viðskiptalífinu sem tryggðu það að næsta kynslóð Engeyinga hélt áhrifum innan bankakerfisins. Þó að þeir bræður hafi verið miklir talsmenn einkaframtaksins þá komst Sveinn snemma til áhrifa í opinberum rekstri, en hann var valinn til forystu í Síldarverksmiðjum ríkisins, einungis 24 ára að aldri, og Bæjarútgerð Reykjavíkur fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og útgerðarmanna. Hann rak auk þess eigið síldarsöltunarfyrirtæki sem hann gaf nafnið Hafsilfur. Þaðan kemur nafnið á fjárfestingafélagi Benedikts Sveinssonar, sonar Sveins og föður Bjarna fjármálaráðherra, sem tók þátt í umdeildri einkavæðingu Íslandsbanka á liðnu ári og leitt hefur til athugunar Umboðsmanns Alþingis á hæfi fjármálaráðherra.

Það var í þessum rekstri Hafsilfurs á Raufarhöfn sem það orð fór fyrst af Engeyingum að línan milli þeirra eigin fjármálaumsvifa og opinberra starfa sem þeim voru falin væri ekki alltaf nógu skýr. Það kemur kannski ekki á óvart að Þjóðviljinn hafi fullyrt árið 1952 að eigendur Hafsilfurs nýttu stöðu sína hjá Síldarverksmiðjum ríkisins til hagsbóta fyrir eigið fyrirtæki, en það vekur meiri eftirtekt að stórútgerðarmaður innan úr Sjálfstæðisflokknum og goðsögn einkaframtaksins, Óskar Halldórsson, hafi séð ástæðu til að skrifa grein í Morgunblaðið árið 1951 þar sem hann kvartar undan „óþolandi ástandi“ á Raufarhöfn þar sem síldarsaltendum sé mismunað um aðgang að talstöðvum Síldarverksmiðja ríkisins:

„Menn þurfa ekki, sem kunnugir eru málum þessum, að furða sig á því, að síldarsaltendur á Raufarhöfn, sem eru í stjórn síldarverksmiðjanna og ráða yfir talstöðinni, gera lítið til þess að fá þessu breytt.“

Náið samstarf var milli Sveins og Halldórs Kr. Þorsteinssonar sem var kvæntur móðursystur Sveins, en Halldór var frumkvöðull í togaraútgerð, einn umsvifamesti útgerðarmaður landsins sem hluthafi í Hval hf. og Alliance hf. og stofnandi og stjórnarmaður í áratugi í Sjóvá og Eimskipafélaginu. Sjóvá var á þessum tíma stærsta tryggingafélag landsins og þar náðu þeir Halldór og Sveinn sterkri stöðu með kaupum á hlutabréfum. Halldór sat í stjórn fyrirtækisins í 45 ár, þar af 25 ár sem stjórnarformaður. Hann lét af formennskunni árið 1964 og fól hana þá Sveini, sem gegndi henni allt þar til hann lést árið 1979. Það var einmitt eign Sveins í Sjóvá sem átti eftir að tryggja afkomendum hans völd í viðskiptalífinu og þar á meðal í bankakerfinu.

Bræðurnir Pétur, Bjarni og Sveinn Benediktssynir fengu góðar gáfur og óbilandi metnað úr foreldrahúsum en auðmagni kynntust þeir líklega ekki fyrr en að þeir gerðust handgengnir Ólafi Thors og Halldóri Kr. Þorsteinssyni, tveimur af efnuðust Íslendingum þess tíma. Ólafur hafði erft stórfyrirtæki föður síns og var á tímabili stærsti vinnuveitandi landsins og formaður Sjálfstæðisflokksins en Halldór byggði sjálfur upp sinn auð sem frumkvöðull í togaraútgerð og var m.a. fyrsti skiptstjórinn á Jóni forseta, fyrsta togaranum sem var smíðaður fyrir Íslendinga.

3. þáttur: Benedikt og Einar Sveinssynir

Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna fjármálaráðherra, tók við stjórnarformennsku í Sjóvá við andlát föður síns og fjórum árum síðar, 1983, var Einar bróðir hans gerður að forstjóra fyrirtækisins. Eignarhlutur þeirra í Sjóvá var trygging fyrir víðtækum völdum í viðskiptalífinu, enda átti tryggingafélagið stóra eignarhluti í öðrum stórfyrirtækjum, þar á meðal í Eimskipi, Flugleiðum, Skeljungi, útgerðarfyrirtækjum, Verslunarbankanum og Iðnaðarbankanum. Þeir bræður Benedikt og Einar gerðust fljótt stórtækir í hlutabréfakaupum í nafni Sjóvár og árið 1984 urðu þau tímamót að Sveinssynir tóku í fyrsta skipti þátt í einkavæðingu ríkiseigna þegar Sjóvá keypti hlut ríkisins í Eimskipi. Hætt var við einkavæðinguna í það skiptið vegna þess hve umdeild framkvæmdin varð. Um þessa einkavæðingartilraun fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins rituðu keppinautar þeirra bræðra harðorða grein í Morgunblaðið þar sem fjallað var um sérstök tengsl bræðranna við flokkinn og „flokkseigendafélag“ þeirra. Ári síðar var gerði önnur atrenna að einkavæðingunni og þá gekk dæmið upp og Sjóvá eignaðist hlutabréf ríkisins í Eimskip.

Þeir bræður áttu eftir að tengjast fleiri umdeildum viðskiptum með opinberar eignir, þar á meðal við sölu borgarinnar á hlut sínum í Granda árið 1988, einkavæðingu SR-mjöls 1993, sölu Borgunar 2014 og nú síðast einkavæðingu Íslandsbanka á síðasta ári. Eins urðu kaup borgarinnar á landi fjölskyldunnar við Þingvallavatn 1985 til að vekja nokkra furðu. En sú einkavæðing sem er veigamest fyrir þessa sögu er sala ríkisins á Útvegsbanka og sameining hans og Iðnaðarbanka, Verslunarbanka og Alþýðubanka undir nafni Íslandsbanka árið 1990. Þeir Benedikt og Einar tengdust þessum viðskiptum í gegnum verulegan eignarhlut Eimskips og Sjóvár í Iðnaðar- og Verslunarbanka. Þannig jók Sjóvá t.d. eignarhlut sinn í Verslunarbankanum árið 1989 og var þar einn stærsti hluthafinn ásamt Eimskipi þegar til samrunans kom. DV fjallaði um valdaátökin í aðdraganda stofnunar Íslandsbanka í apríl 1990:

„Stóru hluthafarnir í gamla Verslunarbankanum og Iðnaðarbankanum, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Eimskip, Sameinaðir verktakar og Sjóvá-Almennar, munu með því að ná undirtökunum í Eignarhaldsfélagi Verslunarbankans og Eignarhaldsfélagi Iðnaðarbankans, ná undirtökunum í stjórn Íslandsbanka, vera þar með fjögur stjórnarsæti af sjö.“

Svo fór að Einar Sveinsson var kjörinn formaður bankaráðs Íslandsbanka á öðru rekstrarári bankans, 1991, og sat síðan sem óbreyttur bankaráðsmaður til ársins 2004. Hann sá sem sagt um bankarekstur bræðraveldisins á meðan Benedikt hélt um valdataumana í stjórnum Eimskips, Flugleiða, Sjóvár og Granda.

Nótt eina árið 2003 dró til mikilla tíðinda í íslensku viðskiptalífi þegar til uppgjörs kom milli gamalla og nýrra valdablokka. Engeyjarbræður misstu þá tök sín á gamla ættaróðalinu Sjóvá en fengu það ríkulega greitt með hlutabréfum í Íslandsbanka. Einar komst þá í stöðu til að krefjast aftur formennsku í bankaráðinu árið 2004 og hætti þá sem forstjóri Sjóvár. Áhrif þeirra bræðra í Íslandsbanka voru því orðin slík á þessum árum að Bjarni Benediktsson gat árið 2006, þá óbreyttur þingmaður Sjálfstæðisflokksins, farið fyrir hópi kaupenda á stærsta olíufélagi landsins. Fjölskyldan reyndist svo umsvifamikil í fjárfestingum að hún varð stærsti lántakandi Íslandsbanka á því tímabili sem hún hafði mest áhrif innan bankans og námu lán þeirra um 20% af eiginfjárgrunni bankans. Stundin (nú Heimildin) fjallaði ítarlega um það hvernig bræðurnir, og Bjarni Benediktsson fyrir þeirra hönd, beittu áhrifum sínum innan bankans til að sækja lán til eigin fjárfestinga. Segir í sömu umfjöllun að vegna þessara fjárfestinga Engeyinga og gjaldþrots þeirra í bankahruninu 2008 hafi fjármálastofnanir þurft að afskrifa 130 milljarða króna.

4. þáttur: Bjarni Benediktsson

Þannig liðu níutíu ár frá því að Benedikt Sveinsson kom fyrstur Engeyinga að stjórn banka og þangað til að fjölskyldan glataði völdum sínum í íslenska bankakerfinu við efnahagshrunið 2008. Auður og völd þessara þriggja kynslóða voru þó gjörólík, enda voru þetta þrjú gjörólík tímabil í bankarekstri. Landsbanki Benedikts Sveinssonar var frekar veik fjármálastofnun þar sem útlánageta var takmörkuð af gullfæti. Þrátt fyrir það var það hagsmunamál stjórnmála- og viðskiptablokka, þá eins og hingað til, að koma sínu fólki í bankastjórastöður. Þegar Pétur Benediktsson varð bankastjóri Landsbankans var kerfið orðið gegnumsýrt af pólitíkri spillingu þar sem viðskiptablokkir og stjórnmálaflokkar höfðu nánast runnið saman í eitt og lánuðu útvöldum lán á lágum vöxtum í viðvarandi verðbólgutíð. Lánin voru því miklu heldur gjafagjörningur en sá þungi baggi sem lán gátu orðið eftir að verðtryggingin kom til sögunnar á 9. áratugnum. Það er síðan þegar Sveinssynir, þriðja kynslóðin í þessari sögu, koma að rekstri Íslandsbanka sem að bankar voru að taka á sig alveg nýja mynd með nær takmarkalausri heimild til að prenta peninga og auðga eigendur sína með fordæmalausum þóknana- og arðgreiðslum.

Þó að Engeyjarfjölskyldan hafi tapað völdum sínum í bankakerfinu árið 2008 þá lauk þessari sögu ekki við það. Þá var pólitískur frami Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra rétt að hefjast og hann var kosinn formaður flokksins árið 2009, þrátt fyrir aðild sína að fjármálabraskinu í aðdraganda hrunsins. Árið 2013 reyndist örlagaríkt fyrir Bjarna þegar Vafningsmálið svonefnda kostaði hann næstum formennskuna í flokknum í aðdraganda þingkosninga, en það var líka árið sem markaði upphafið að nær óslitinni setu hans í fjármálaráðuneytinu, þar sem hann hefur sýslað með eignarhald ríkisins á Íslandsbanka og Landsbanka í gegnum Bankasýslu ríkisins. Hvort að það muni síðan marka endalok áhrifa Engeyjarættarinnar í bankakerfinu þegar Bjarni hættir í stjórnmálum
— það verður sagan að leiða í ljós.

--

--

Guðmundur Hörður

Hér skrifa ég pistla um sagnfræðileg efni, en almenna bloggpistla birti ég á gudmundurhordur.blogspot.com